Afmælisbörn 20. nóvember 2025

Kjartan Baldursson

Í dag eru fjögur tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar.

Tónlistarmaðurinn og tónskáldið Helgi Hrafn Jónsson er fjörutíu og sex ára gamall. Helgi Hrafn kemur af Seltjarnarnesinu þar sem hann steig sínu fyrstu tónlistarspor með hljómsveitinni Bossanova og Lúðrasveit æskunnar en hefur einnig starfað með Aton og fleiri sveitum. Hann nam básúnuleik í Austurríki en spilar á miklu fleiri hljóðfæri og á að baki nokkrar sólóplötur, auk þess þess sem hann hefur leikið inn á fjölda platna með tónlistarmönnum eins og Mugison, Leaves, Hjaltalín, Sigur rós, Sing Fang, Valgeiri Sigurðsson, Amiinu og Sprengjuhöllinni. Hann hefur unnið til fjölda viðurkenninga fyrir tónlist sína.

Bergþór Smári gítarleikari og söngvari er fimmtíu og eins árs í dag. Hann hefur töluvert leikið með blússveitum en hefur einnig starfað sem sólólistamaður og með Örlygi bróður sínum, og á að baki eina sólóplötu. Meðal hljómsveita sem Bergþór Smári hefur leikið með má nefna Mood, Bundið slitlag, Dalvik All Star, Kirsuber, SRV og Skóbúð Imeldu Marcos. (SIM).

Tónlistarmaðurinn Arnljótur Sigurðsson er þrjátíu og átta ára á þessum degi. Arnljótur hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi og starfað með og leikið á fjölda hljóðfæra með sveitum eins og Ojbarasta, Berndsen, Spilbandinu Runólfi, Konsulat, Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar, Sin Fang og rappsveitinni Fallegum mönnum svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd. Þá hefur hann gefið út plötur í eigin nafni og sem Kraftgalli, starfað sem plötusnúður og fyrir tónlistargrasrótina.

Að síðustu er hér nefndur yfir afmælisbörn dagsins gítar-, hljómborðs- og bassaleikarinn Kjartan Baldursson (fæddur 1951) sem starfaði með fjölmörgum hljómsveitum hér áður, hér má nefna sveitir eins og Hvísl, Kartöflumýsnar og Rómeó. Kjartan lést árið 1999 eftir erfið veikindi.