
Högni Jónsson
Glatkistan hefur tvö tónlistartengd afmælisbörn á skrá sinni á þessum degi:
Hjálmfríður Þöll Friðriksdóttir (Frida Fridriks) tónlistarkona er fimmtíu og sjö ára gömul í dag. Hún er af tónlistarfólki komin og var ung farin að syngja í Barnakór Tónlistarskóla Rangæinga en hún söng einsöng með kórnum á plötu aðeins þrettán ára gömul. Hjálmfríður söng með fáeinum hljómsveitum og á plötum hér heima áður en hún fluttist til Danmerkur þar sem hún býr nú og kennir tónlist við listaháskóla. Hún hefur gefið út sólóbreiðskífur og starfar með hljómsveitum einnig ytra.
Högni Jónsson harmonikkuleikari hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2020. Högni var fæddur 1936 og hafði á yngri árum leikið nokkuð á dansleikjum en gerði lítið af því síðar, hann var hins vegar mikill áhugamaður um hljóðfærið og var meðal stofnenda Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, hann sá einnig um að flytja inn til landsins erlenda harmonikkuleikara og stóð jafnframt fyrir innflutningi á harmonikkum um tíma. Högni er þó þekktastur fyrir umsjón útvarpsþátta um efnið um árabil.














































