Torture [1] (1990)

Lítið liggur fyrir um dauðarokksveitina Torture sem starfaði á höfuðborgarsvæðinu 1990. Fróði Finnsson (Infusoria o.m.fl.) var einn meðlima og spilaði líklega á gítar en upplýsingar vantar um aðra meðlimi sveitarinnar. Þeir voru allir á unglingsaldri.

Torture [2] (1994)

Húsvíska dauðarokksveitin Torture keppti í Músíktilraunum vorið 1994, svolítið eftir að dauðarokksenan hafði náð hámarki hér á landi. Sveitin komst ekki í úrslit en meðlimir hennar voru Arngrímur Arnarson gítarleikari, Snæbjörn Ragnarsson gítarleikari, Brynjúlfur Sigurðsson söngvari og bassasleikari og Hlynur Þór Birgisson trommuleikari. Kjarni sveitarinnar átti eftir að birtast fáeinum árum síðar í pönksveitinni Innvortis.