Hjördís Geirsdóttir (1944-)

Hjördís Geirsdóttir

Söngkonan Hjördís Geirsdóttir á að baki langan tónlistarferil, feril sem spannar á sjöunda tug ára og hún er enn að syngja. Hjördís á jafnframt að baki tvær útgefnar sólóplötur og eina safnplötu, og hefur einnig sungið inn á fáeinar aðrar plötur með öðrum listamönnum.

Hjördís Jóna Geirsdóttir er fædd um það leyti sem lýðveldið Ísland varð til, um vorið 1944. Hún er frá Byggðarhorni í Flóa, rétt sunnan við Selfoss en þar gekk hún í skóla. Hjördís er af söng- og tónelsku fólki komin og varð snemma liðtæk bæði á harmonikku og gítar, foreldrar hennar sungu bæði – síðar átti hún eftir að nema söng um nokkurt skeið hjá Guðrúnu Tómasdóttur söngkonu.

Gissur eldri bróðir hennar var tónlistarmaður, starfrækti hljómsveitir og var þekktur sveitaballakóngur á Suðurlandi, og það var einmitt hann sem fékk Hjördísi til liðs við sig 15 ára gamla í hljómsveit sína Tónabræður sumarið 1959 en þar söng einnig um tíma systir þeirra, Úlfhildur. Reyndar höfðu þær systur þá áður komið fram og sungið á skemmtunum í sveitinni en frumraun hennar með Tónabræðrum var fyrsta alvöru áskorunin. Hjördís hafði þá þegar tileinkað sér slagarann Mama sem þá var vinsæll en lagið varð æ síðan eins konar einkennislag hennar rétt eins og Manstu vinur.

Hjördís söng með hljómsveitum Gissurar í nokkur ár, fyrst með Tónabræðrum og svo Caroll sextettnum en gekk svo til liðs við Safír sextettinn og svo um skemmri tíma með hljómsveitum eins og Hljómsveit Björns Gunnarssonar og Hljómsveit Finns Eydal sem hún starfaði með í nokkra mánuði. Áður hafði hún þá verið við nám í Húsmæðraskólanum að Laugarvatni (veturinn 1961-62) þar sem hún starfrækti ásamt nokkrum stöllum sínum sönghópinn Söngsystur, þann vetur söng hún einnig með skólahljómsveit sem Ingimar Eydal bróðir Finns var með á Laugarvatni en hann var þá við nám í Menntaskólanum á Laugarvatni.

Hjördís Geirs 1965

Þegar Hjördís flutti til Reykjavíkur (1962) hóf hún að syngja með Hljómsveit Einars Loga Einarssonar en sú sveit starfaði mikið til á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum, það varð Hjördísi heilmikil reynsla en svo tók við langt tímabil þar sem hún söng með hljómsveitum Karls Lilliendahl, fyrst á Klúbbnum í nokkra mánuði en svo á Hótel Loftleiðum þegar það opnaði árið 1966 en sveitin var fastráðin þar – þar átti hún eftir að syngja allt til ársins 1971 en sveitin fór einnig víðar og t.a.m. fór hún til Finnlands sumarið 1970 og spilaði þar í ríflega mánuð.

Vorið 1971 urðu þau tímamót hjá Hjördísi að hún hætti að syngja á Loftleiðum og hætti þá að mestu öllum opinberum söng um nokkurra ára skeið til að sinna barneignum og barnauppeldi, hún bjó m.a. um tíma í Vestmannaeyjum, söng þar aðeins í sönghópi á árshátíð vinnustaðar síns en þegar hún flutti aftur upp á meginlandið voru söngstörf hennar mestmegnis í formi tímabundinna verkefna, t.d. söng hún lítillega með hljómsveit Reynis Sigurðssonar í Þjóðleikhúskjallaranum og eitthvað kom hún einnig fram með hljómsveit bróður síns, Gissurar Geirs. Hins vegar gekk hún til liðs við Árnesingakórinn og söng með honum lengi, hún var virk í félagsstarfi kórsins og var t.a.m. formaður hans um skeið. Áður hafði hún sungið í kirkjukór Selfosskirkju og síðar átti hún einnig eftir að syngja með kirkjukór Seljakirkju auk þess að sinna þar formennsku einnig, Álftaneskórnum og Gaflarakórnum.

Það var svo árið 1980 sem Hjördís sneri sér að söngstörfum af fullum krafti á nýjan leik, þá hóf hún að syngja með Hljómsveit Jóns Sigurðssonar í Ártúni en þar voru það mestmegnis gömlu dansarnir sem réðu ríkjum. Á næstu árum söng hún með fleiri sveitum og víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina, hún kom t.d. fram með Hljómsveit Karls Lilliendahl (þeirri sömu og hafði leikið á Loftleiðum) á 50 ára afmælishátíð FÍH árið 1982, söng með Guðmundi Ingólfssyni og félögum um skeið á Naustinu og einnig með ýmsum harmonikkuhljómsveitum eins og Neistum en heilmikil harmonikkuvakning hafði þarna orðið á landinu með stofnun fjölda harmonikkufélaga. Þá söng hún heilmikið á átthagaslóðum í Árnessýslu, t.d. með hljómsveitunum Kaktusi og Þrívídd m.a. í Inghóli á Selfossi en einnig í tónlistarsýningum á skemmtistaðnum Broadway sem þá voru að komast í tísku. Tíglar og Goðgá voru einnig hljómsveitir sem Hjördís tróð upp með þó ekki væri hún fastur meðlimur í þeim sveitum.

Hjördís Geirs með augum listamannsins Baltasars

Fljótlega eftir að Hjördís hafði byrjað að syngja aftur opinberlega söng hún inn á plötu Örvars Kristjánssonar – Sunnanvindur (1981) en það var í fyrsta sinn sem hún söng inn á plötu, titillag hennar naut heilmikilla vinsælda en þar söng hún dúett á móti Örvari. Ári síðar heyrðist rödd hennar einnig á plötu sem gefin var út í tilefni af áðurnefndu 50 ára afmæli FÍH 1982 en lag sem hún söng með hljómsveit Karls Lilliendahl var eitt þeirra sem hljóðritað hafði verið á afmælishátíðinni og komið út á tvöfaldri tónleikaplötu, það var lagið Manstu vinur. Þá er söng Hjördísar einnig að finna á plötunni Danslagakeppni Hótel Borg árið 1986 en þar söng hún við undirleik hljómsveitar Jóns Sigurðssonar sem Hjördís söng einmitt mest mest um það leyti. Árið 1988 söng hún svo inn á tvær plötur, annars vegar plötu Hauks Sveinbjarnarsonar – Kveðja og hins vegar jólaplötuna Jólaballið.

Árið 1990 kom út sólóplata í nafni Hjördísar en hún bar nafnið Paradís á jörð og hafði að geyma tólf lög, flest þeirra voru ný en þar var einnig að finna einkennislög hennar, Mama og Manstu vinur. Á plötunni naut hún aðstoðar fjölda þekktra tónlistarmanna s.s. úr hljómsveitinni Mezzoforte en einnig komu sveitungar hennar frá Selfossi og Flóanum þar heilmikið við sögu – Ólafur Þórarinsson (Labbi) sem hafði yfirumsjón með verkefninu og Vignir Þór Stefánsson en einnig nánari skyldmenni eins og systkini hennar – Gissur, Gísli og Brynhildur sem rödduðu ásamt frænku þeirra, Jónínu Lóu Kristjánsdóttur. Platan hlaut þokkalega jákvæða dóma í DV.

Hjördís hafði um það leyti sem platan kom út starfað um nokkurra ára skeið með hljómsveit Jóns Sigurðssonar sem lék víða um höfuðborgarsvæðið, mest á stöðum sem töldust vera dansstaðir eins og Hreyfilshúsið við Grensásveg og Ártún við Vagnhöfða en einnig á tónlistarsýningum á Broadway og Hótel Borg. Þegar Jón lést í upphafi árs 1992 eftir nokkur veikindi var sveit hans samningsbundin Ártúni fram á vor og starfaði sveitin í nafni hans út samningstímann en eftir það héldu þau hin samstarfinu áfram undir nafninu Hljómsveit Hjördísar Geirs. Sveitin starfaði nokkuð samfleytt allt til ársins 2009 og lék bæði á áðurnefndum dansstöðum og stærri stöðum eins og Hótel Íslandi og Hótel Sögu en einnig á dansleikjum á landsbyggðinni og árshátíðum og hvers konar samkomum, einkum fyrir þá sem komnir voru af léttasta skeiði. Einnig söng hún nokkuð með öðrum hljómsveitum fram að aldamótum s.s. hljómsveitum Karls Jónatanssonar (m.a. Neistum og Perlubandinu svokallaða), Gleðigjöfum André Bachmann, Heklutríóinu og fleiri sveitum, þá kom hún töluvert fram með stökum tónlistarmönnum eins og Ragnari Páli Einarssyni, Örvari Kristjánssyni og Sigurgeiri Björgvinssyni (Siffa) svo nokkur nöfn séu nefnd. Þá hefur Hjördís einnig komið að öðrum tónlistartengdum verkefnum, sungið á styrktar- og minningartónleikum um Hauk Morthens og Jón Sigurðsson til dæmis. Þó hún hafi alltaf verið hlaðin verkefnum hefur hún sinnt tónlistinni til hliðar við önnur störf en hún hafði komin á miðjan aldur menntað sig og starfað bæði sem sjúkraliði og snyrtifræðingur.

Hjördís sendi frá sér nýja plötu árið 2001, hún bar titilinn Hjördís Geirsdóttir ásamt gömlum og glöðum vinum, og þar naut hún fulltingis félaga sinna í hljómsveit sinni. Skífan hafði að geyma lög úr ýmsum áttum og ýmsum tímum og þar á meðal voru einnig nokkur ósungin þannig að segja má að Hljómsveit Hjördísar Geirs eigi jafnmikið í henni og söngkonan sjálf. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Hjördís hefur í seinni tíð einnig sungið inn á fjölmargar plötur með öðrum listamönnum og hér má t.a.m. nefna plötur Karls Jónatanssonar – Lillý (1997) og Sniglabandsins – Vestur (2007), tvöfalda plötu með lögum Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis – Lífslög Sigurðar dýralæknis í 60 ár, 1958-2018 … og landslið söngvara (2018), og svo plötu Heru Bjarkar Þórhallsdóttur – Hera Björk (2006), dóttur Hjördísar en hún er vel þekkt söngkona og hefur t.a.m. gefið út sólóplötur og verið fulltrúi Íslands í Eurovision söngvakeppninni. Þær mæðgur hafa í nokkur skipti sungið saman á tónleikum og Hera Björk söng t.a.m. einnig á plötu móður sinnar sem kom út 2001.

Hjördís með hljómsveit sinni

Árið 2009 kom út eins konar safnplata með úrvali laga af fyrri tveimur plötum Hjördísar, platan hafði að geyma fimmtán af þeim tuttugu og sex lögum sem áður höfðu komið út og bar nafnið Hjördís Geirsdóttir 1959-2009: Samantekt af diskunum Paradís á jörð, 1991 og Hjördís Geirs og glaðir og gamlir félagar, 2001, en tilefnið var hálfrar aldar söngafmæli söngkonunnar en einnig var hún með tónleikahald í kringum það afmæli.

Hjördís var þarna hvergi nærri hætt að syngja en áherslurnar voru töluvert breyttar, hún söng nú meira en áður fyrir eldri borgara og starfaði t.a.m. um nokkurt skeið sem skemmtanastjóri fyrir ferðaskrifstofur í tengslum við utanlandsferðir eldri borgara og þar söng hún og lék á gítar, einnig hefur hún stýrt söngstarfi fyrir aldurshópinn hér heima, starfað með hljómsveitum og stýrt sönghópum eins og Hafmeyjunum og Stuðgellunum þar sem hún hefur sjálf séð um undirleik. Þegar þetta er ritað er Hjördís enn að, hélt m.a. tónleika í Salnum í Kópavogi vorið 2024 í tilefni af 80 ára afmæli sínu og um leið 65 ára söngafmæli sínu.

Efni á plötum