Afmælisbörn 10. júní 2024

Sigurveig Hjaltested

Sex afmælisbörn koma við sögu hjá Glatkistunni á þessum degi:

Hugi Guðmundsson tónskáld er fjörutíu og sjö ára gamall í dag, hann nam tónsmíðar hér heima, auk mastersgráða í Danmörku og Hollandi og hefur unnið til ýmissa verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín, m.a. á Íslensku tónlistarverðlaununum í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Hugi hefur starfað með ýmsum hljómsveitum á ferli sínum s.s. Njúton.

Ragna Kjartansdóttir (Cell7) tónlistar- og hljóðvinnslukona er fjörutíu og fjögurra ára gömul í dag. Hún vakti fyrst athygli fyrir framlag sitt í Subterranean og Tha Faculty hópnum sem rappari í kringum aldamótin en lét lítið fyrir sér fara meðan hún menntaði sig í hljóðupptökufræðum í New York. Hún birtist þó aftur og hefur gefið út sólóplötur en hún hefur einnig annast dagskrárgerð í útvarpi. Ragna hefur einnig rappað sem gestur á plötum annarra rappara eins og þeirra er siður.

Einar Sturluson tenórsöngvari (1917-2003) átti afmæli á þessum degi líka. Hann lærði söng hér heima, í Svíþjóð og Þýskalandi, starfaði mest eftir það í Noregi en varð að hætta að syngja þegar hann greindist með slæman astma. Þá kom hann heim til Íslands og sinnti eftir það mestmegnis söngkennslu. Eftir miðjan aldur var Einar laus við astmann og hóf þá að syngja á nýjan leik og gerði það allt til andláts. Safnplata með söng hans kom út 2002.

Kári Jónsson bassaleikari sem iðulega er kenndur við hljómsveitina 200.000 naglbíta er fjörutíu og fimm ára gamall í dag. 200.000 naglbítar gáfu út nokkrar plötur á sínum tíma en Kári hefur einnig starfað með hljómsveitum eins og Alias Bob, Aski Yggdrasli og Gleðitríóinu Ásum sem strangt til tekið eru eins konar afsprengi Naglbítanna.

Annar bassaleikari, Stefán (Daði) Ingólfsson er sextíu og sjö ára gamall í dag. Stefán hefur leikið með fjölda hljómsveita s.s. J.J. Soul band, Kynslóðinni, Djasstríói Birgis Karlssonar, Na nú na, Mór, Ókyrrð, Tregasveitinni, Xplendid, Örkinni hans Nóa og Súld, auk þess að hafa leikið inn á ógrynni platna í gegnum tónlistarferil sinn.

Sigurveig L. Hjaltested söngkona hafði ennfremur þennan afmælisdag. Hún var ein af fyrstu óperusöngkonum íslenskrar tónlistarsögu, söng í ótal óperuuppfærslum, í kórum og á einsöngstónleikum auk þess að kenna söng, sjálf hafði hún lært m.a. hjá Þorsteini Hannessyni. Sigurveig hlaut margar viðurkenningar fyrir framlag sitt til sönglistarinnar, t.d. fálkaorðuna. Söng hennar má heyra á fjölmörgum plötum, meðal annarra með Sigurði Ólafssyni en þau störfuðu nokkuð saman.

Vissir þú að kór var starfandi innan bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli?