Einar Sturluson (1917-2003)

Einar Sturluson

Einar Sturluson

Einar Sturluson tenórsöngvari gerði garðinn frægan með óperusöng hér heima og erlendis áður en hann varð að hætta vegna astma. Hann var flestum gleymdur þegar hann gaf út tvöfalda plötu með upptökum frá ýmsum tímum en hann var þá á níræðis aldri.

Einar fæddist í Flóanum 1917, þótti snemma liðtækur söngvari, nam fyrst söng hér heima m.a. hjá Pétri Jónssyni og Sigurði Birkis en hann söng fyrst opinberlega liðlega tvítugur að aldri, síðar (1957) lá leið hans til Svíþjóðar þar sem hann lagði m.a. stund á söngnám hjá Jussa Björling, og síðar til Þýskalands. Einar starfaði mestmegnis í Noregi sem söngvari en þegar hann var greindur með astma neyddist hann til að draga sig í hlé og kom hann þá heim til Íslands þar sem hann sinnti mestmegnis söngkennslu, hann starfaði einnig eitthvað við dagskrárgerði í útvarpi.

Einar var laus við astmann um miðjan aldur og átti þá eftir að syngja nokkuð, hann vakti til að mynda athygli fjölmiðla hér heima þegar hann söng 82 ára gamall á ættarmóti á heimaslóðum en hann starfaði við söngmennt við elliheimilið Grund fram í andlátið, hann hafði einnig fengist við raddþjálfum m.a. á Akranesi og víðar auk þess að kenna söng. Á árum áður hafði hann auk þess að halda einsöngstónleika, sungið með söngflokkum og kórum eins og Árnesingakvartettnum og Karlakór Iðnskólans (Iðnaðarmannakórnum).

Árið 2002 gaf Einar í samvinnu við Ríkisútvarpið út tvöfalda plötu sem bar heitið Þú Bláfjallageimur, en þar var að finna söng hans frá ýmsum tímum, úr fórum Ríkisútvarpsins og víðar. Elstu upptökurnar voru frá 1948 en þær yngstu frá því um það leyti sem platan kom út. Bjarki Sveinbjörnsson ritaði inngangsorð í bæklingi en platan hlaut prýðilega dóma í Morgunblaðinu.

Einar söng nánast fram í andlátið en hann lést 86 ára að aldri sumarið 2003.

Efni á plötum