Poppsveitin Sólstafir kveður sér hljóðs

Sólstafir – Ótta 
Season of mist SOM 331D (2014)

4,5 stjarna

Sólstafir - Ótta

Sólstafir – Ótta

Saga Sólstafa nær bráðlega tveimur tugum ára og á þeim árafjölda hefur sveitin sent frá sér ógrynni efnis í formi diska, vínylplatna og snælda. Framan af starfaði sveitin neðanjarðar og kom til að mynda ekki opinberlega fram fyrr en 1999, en þá hafði hún reyndar sent frá sér heilmikið efni án þess að vekja athygli annarra en þröngs hóps harðkjarnarokkara. Fyrsta alvöru útgáfa Sólstafa var þó ekki fyrr en 2002 þegar Í blóði og anda kom út og fékk góða dóma, sömuleiðis Masterpiece of bitterness (2005), Köld (2009) og Svartir sandar (2011) en það er með síðastnefndu plötunni sem Sólstafir fengu þá almennu hylli sem hún nýtur orðið í dag.

Hér er aftur á móti fjallað um nýjustu plötu Sólstafa, Óttu sem kom út fyrir nokkrum vikum. Ótta er átta laga plata sem skipt er niður í eyktir sólarhringsins en hver eykt nær yfir þriggja klukkustunda bil, hún tekur því yfir tímabilið frá miðnætti til miðnættis í réttri tímaröð.

Platan byrjar rólega og til dæmis heyrast ekki gítar og trommur fyrr en á þriðju mínútu hennar, strengir og píanó (orgel og önnur hljómborð) eru áberandi á löngum köflum og erfitt er að ímynda sér að þetta sé hin sama sveit og sendi frá sér lög eins og Til Valhallar og önnur í þyngri kantinum fyrir ekkert svo löngu síðan. Það er því óhætt að segja að Ótta sé mun poppaðri en fyrirrennar hennar en það þarf auðvitað ekki að vera neikvætt, hún er því mun aðgengilegri en fyrri plötur, jafnvel Svartir sandar sem þó þótti grípandi. Á köflum dettur manni meira að segja Sigur rós í hug.

Lögin eru eins og áður í lengri kantinum, Sólstafir eru ekkert að hengja sig í þriggja mínútna staðlaða Eurovision-pakka og er vel, víða liggja tengingar milli laga og innan laga má líka heyra kaflaskipti, oftast skiptast á rólegir kaflar með strengjum (Amiinu) og píanói og svo harðari kaflar.

Ótta sýnir að það þarf ekki endilega hljómasúpu til að falla í kramið, fáir hljómar geta virkað jafn vel og stundum betur ef hlutirnir eru gerðir á réttan hátt, einhvern tímann hefði maður til dæmis haldið að banjó (sbr. titillagið Ótta) félli illa að þess konar tónlist en svo er ekki.

Textar plötunnar hafa ekki beinlínis skírskotun í fyrrnefndar eyktir þótt stöku sinnum sé vísað til þeirra. Þó sveitin hafi fyrir löngu yfirgefið heim norrænnar goðafræða sem frændur þeirra í Skálmöld hafa haldið tryggð við, þá er hinn myrki dauðaandi þeirra fræða einhvern veginn enn viðloðandi.

Það er eitt sem ég verð að nefna textalegs eðlis en það er sú setningafræðilega rangárátta að færa (um)sagnir fram fyrir andlagið sbr. Skammverm sólin horfin er / Í dauðans hönd ég tók / Hitinn enginn er / Ég ekkert lengur gef, þannig að úr verður orðaröð sem jú auðvelt er að ríma við en verður um leið óeðlileg.

Umslag Óttu hlýtur að verða eitt af umslögum ársins, kunn mynd Ragnars Axelssonar af Guðjóni Þorsteinssyni frá Garðakoti við Dyrhólaey hæfir efninu fullkomlega og það er kærkomið að sjá íslenska tónlistarmenn leggja jafn mikla áherslu á umbúðirnar og hér.

Samandregið má segja að Ótta sé algjörlega að gera sig, hér er engu ofaukið og ekkert vantar, og hún er jafngóð í gegn. Sólstafir er orðin poppsveit og það þarf alls ekki að vera neitt neikvætt við það.