Óhefðbundin snilld

Prins Póló – Sorrí
Skakkapopp SKA 08 (2014)

4 stjörnur

Prins Póló - Sorrí

Prins Póló – Sorrí

Svavar Pétur Eysteinsson er löngu þekktur í íslensku tónlistarlífi, hann var í hljómsveitum eins og Skakkamanage, Létt á bárunni, Rúnk og fleiri böndum en kom fyrst fram á sjónarsviðið sem Prins Póló árið 2009 þegar hann gaf út fjögurra laga smáskífuna Einn heima. Síðan hefur hann reglulega sent frá sér efni og landsmenn flestir þekkja orðið lagið Niðrá strönd, sem var á plötunni Jukk (2010).

Framan af hafði maður á tilfinningunni að Prins Póló væri ekki tónlistarmaður í eiginlegum skilningi heldur flippaður listamaður (eða listhneigður flippari) sem væri að gera grín að tónlistarforminu eins og ku hafa verið með Egil Sæbjörnsson á sínum tíma (Tonk of the lawn). Ástæðan er óhefðbundin nálgun hans á tónlistina og framsetningu hennar.

Nýjasta plata Prins Póló, Sorrí kom út fyrr á þessu ári og er til umfjöllunar hér, hún byrjar gríðarlega vel og fjögur fyrstu lögin koma sterk inn. Fyrsta lagið, Fallegi smiðurinn er í raun keyrt á einum hljómi, það gengur þó fullkomlega upp og í kjölfarið koma Hamstra sjarma, Tipp topp og Bragðarefir sem öll hafa gert það gott í ljósvakamiðlunum.

Heldur dofnar yfir Sorrí í næstu tveimur lögum áður en platan nær flugi aftur en það er þó alltaf þannig í lögum Prins Póló að ef þau eru slök þá bæta textarnir þau upp. Þeir eru algjörlega þess virði að hlustað sé á þá og hann fer víða í þeim, allt frá samskiptakrísum við makann til djamms með félögunum og jafnvel ádeilu á kjötneyslu: Kjúklingabringan / vacumpökkuð snyrtilega / ræ ræ ræ ræ ræ / hver vill borða hræ?.  Eftirfarandi er annað dæmi og hér er textinn í engu samræmi við rólegt lagið: Ég get verið alveg fáránlega hress / en ég get verið viðbjóðslega leiður líka / hvort er mikilvægara‘ að vera hress og góður í bólinu / alveg í tipp topp standi‘ í tólinu. Og enn ein textasnilldin: Því ég finn á mér / að þú viljir vera hjá mér / þó ég sé algjört fífl / þegar ég finn á mér. Þetta eru aðeins brotabrot af snilldinni sem fyrirfinnast á plötunni og svo komið sé enn inn á óhefðbundna nálgun Prins Póló má nefna að oft eru áherslur í textunum ekki endilega á fyrsta atkvæði orðs heldur annað eða þriðja atkvæði.

Sem fyrr segir er erfitt að skilgreina tónlist Prins Póló og er jafnvel freistandi að flokka hana sem hamfarapopp í anda Gunnars Jökuls og annarra (a la Arnar Eggert Thoroddsen) en samt ekki, eins konar skrýtipopp fárra hljóma, allt niður í einn hljóm tæknilega séð (Fallegi smiðurinn). Það segir manni að ekki er allt fengið með hljómasúpum og margslungnum melódíum, sjarminn og útgeislunin kemur sterk inn í staðinn og læv er sveitin sérstaklega sterk. Það vita þeir sem það hafa sannreynt. En þótt Prins Póló fari óhefðbundnar leiðir í sköpun sinni er það þó ekki svo að áhrifa annarra gæti ekki, til að mynda má alveg tengja lagið Ég kem með kremið, við 1979 Smashing pumpkins.

Sorrí er frábær plata sem vinnur stöðugt á, hljóðheimur hennar er heilsteyptari en á fyrri plötum Prins Póló og það gerir mikið fyrir plötuna. Henni er síðan lokað með fullkomnum hætti, instrumental lagi sem jú gefur fyrirheit um hefðbundnari tónlist á næstu plötu eða hvað? Vonandi ekki!