Andlát – Svavar Pétur Eysteinsson (1977-2022)

Svavar Pétur Eysteinsson – Prins Póló

Tónlistar- og myndlistarmaðurinn Svavar Pétur Eysteinsson er látinn, fjörutíu og fimm ára gamall eftir nokkurra ára baráttu við erfið veikindi.

Svavar Pétur (f. 1977) kom víða við í tónlistarsköpun sinni og fór síður en svo troðnar slóðir í þeim efnum en sendi frá sér fjölda vinsælla laga, einkum undir nafninu Prins Póló. Hann var Reykvíkingur, Breiðhyltingur nánar til tekið, og því var e.t.v. við hæfi að síðasta myndlistarsýning hans væri í Gerðubergi í Breiðholti en auk þess að vinna við tónlist og myndlist hafði Svavar Pétur lært grafíska hönnun og ljósmyndun.

Svavar Pétur steig sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni eins og svo margir í Músíktilraunum en vorið 1992 keppti hann þar með hljómsveitinni Blimp (1991-93). Í kjölfarið tók pönksveitin Múldýrið (Muleskinner) við (1993-96) en sú sveit sendi frá sér smáskífu árið 1996 sem útgáfufyrirtækið Skakkamanage (sem Svavar Pétur setti á fót) gaf út, hann átti síðar eftir að nota Skakkamanage nafnið á hljómsveit sem hann starfrækti um árabil. Þá var hann einnig í hljómsveitum eins og Emmet og starfaði með Singapore Sling um tíma.

Á nýrri öld var svo komið að hljómsveitinni Rúnk (2001-03) sem vakti nokkra athygli en sú sveit gaf út tvær skífur, annars vegar breiðskífu og jólaplötu í litlu upplagi. Eftir það tók við hljómsveitin Skakkamanage (2003-14) en sú sveit gaf út þrjár breiðskífur (og tvær smáskífur) – í þeirri sveit var einnig Berglind Häsler eiginkona hans. Þau hjónin bjuggu um tíma á Seyðisfirði og þá kom út plata með þeim hjónum við þriðja mann en sú sveit var kölluð Létt á bárunni (2009).

Svavar Pétur var þó þekktastur undir aukasjálfinu Prins Póló en frá árinu 2009 komu út nokkrar smá- og breiðskífur undir því nafni, tónlistina mætti e.t.v. skilgreina sem óhefðbundið popp, jafnvel skrýtipopp með skemmtilegum textum en mörg laga hans náðu miklum vinsældum s.s. Líf ertu að grínast, Niðrá strönd, Bragðarefir, Tipp topp, Er of seint að fá sér kaffi núna, Tipp topp, Læda slæda, Hamstra sjarma og París norðursins svo nokkur dæmi séu nefnd en síðast talda lagið var í samnefndri kvikmynd. Lög Prinsins og textar hafa unnið til verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum og einnig hefur hann hlotið þar fleiri tilnefningar sem og til norrænu tónlistarverðlaunanna. Síðasta verk Prins Póló á tónlistarsviðinu var vínylsmáskífa sem hann sendi nýverið frá sér í litlu upplagi í samstarfi við hljómsveitina S.h. draum.

Svavar Pétur og Berglind bjuggu um tíma austur í Berufirði þar sem þau ráku ferðaþjónustu og gistingu undir nafninu Havarí en það var einnig nafn fyrirtækis þeirra sem m.a. framleiddi matvörur úr grænmeti og annaðist sölu á varningi tengdum Prins póló s.s. veggspjöldum, tónlist o.fl.

Svavar Pétur lætur eftir sig fyrrnefnda eiginkonu, Berglindi, og þrjú börn.