Ljúft með morgunkaffinu

Hafdís Huld – Home
Hafdís Huld HH01 (2014)

3,5 stjarna

Hafdís Huld - Home

Hafdís Huld – Home

Hafdís Huld Þrastardóttir sendi í vor frá sér sína fimmtu breiðskífu (þar af eru tvær ætlaðar börnum) en útgáfunni hafði þá seinkað vegna barneigna söngkonunnar. Hafdís hafði vakið athygli kornung í Gusgus og enn meiri athygli hlaut hún þegar hún var rekin úr sveitinni 1999 en þá hafði hún verið fjögur ár í henni og var aðeins tvítug að aldri þegar hér var komið sögu. Hún hafði þá einnig sungið á plötu Faríseanna og starfað með Shark remover. Eftir brottreksturinn úr Gusgus fluttist Hafdís Huld til Bretlands þar sem hún átti eftir að starfa næstu árin, var í FC Kahuna um tíma en hóf síðan sólóferil sem ekki sér fyrir endann á.

Nýja platan, Home, var að öllu leyti tekin upp og unnin hér heima en þar gegnir unnusti Hafdísar, Alisdair Wright stóru hlutverki, reyndar eins og á nokkrum fyrri plötum hennar. Á Home gegnir hins vegar Calum MacColl einnig lykilhlutverki sem gítarleikari en gítarplokk hans er í raun rauði þráðurinn í gegnum plötuna ásamt söng Hafdísar. Wright spilar öll önnur hljóðfæri.

Platan rennur áreynslulaust í gegn og ætti prýðilega við með morgunkaffinu á sunnudagsmorgni, lágstemmd rödd Hafdísar borin uppi af gítarplokki MacColls og smekklegum skreytingum Wrights þar sem það á við, smá af ukulele, banjói, léttum áslætti og strengjum en píanóið er mest áberandi enda hæfir það tónlistinni fullkomlega. Reyndar ber plokk MacColls keim af stíl Skúla Sverrissonar í laginu Empty eyes, og er vel.

þannig líður hvert lagið á fætur öðru þar til kemur að Pop song en þar kveður við örlítið annan tón. Það er í rauninni allt annars eðlis þótt það sé á rólegu nótunum eins og hin lögin, þar er ekki að heyra eina einustu gítarnótu og allur undirleikur hljómar grunsamlega Casio-legur, eins og hann á væntanlega að gera (líkt og Tomoko af plötunni Dirty paper cup). Lagið hljómar vel eins og flest lög plötunnar en er þó svolítið eins og afgangslag eða uppfylling, jafnvel Eurovision lag sem ekki komst í undankeppnina. Enda 2:59 á lengd.

Queen bee, Lucky, I miss the rain og Pop song eru allt hin ágætustu lög og Hafdís Huld sem semur þorra laganna í samvinnu við aðra (mest Alisdair Wright) er fínn lagasmiður, ekki er hér verið að finna upp hjólið en þó er hér um fínustu plötu að ræða, e.t.v. vantar léttan smell á borð við Kónguló eða Tomoko og því örlar aðeins á einhæfni í tónlistinni. En það er gaman að sjá að Hafdís Huld semur eitt laganna (Pop song) í samstarfi við Nik Kershaw sem margir muna eftir frá níunda áratugnum.

Þannig má segja að kaffibollinn renni ljúflega niður með Hafdísi Huld, og umslag plötunnar er málað sömu litum – smekklegt, áreynslulaust og lágstemmt.