Fjölbreytileg flóra tónlistaratriða

Tónleikaumfjöllun – Iceland Airwaves 2014

5 stjörnurIceland Airwaves tónlistarhátíðin var nú um helgina haldin í sextánda skipti en hún hefur verið fastur liður í tónlistarlífi Íslendinga síðan 1999, þá var hún haldin í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli eins og flestum ætti að vera kunnugt um. Hátíðin hefur vaxið ár frá ári og er í dag orðin risa hátíð með hundruðum tónleika og flytjenda. Undirritaður hefur undanfarin ár sótt hátíðina, ýmist off venue eða aðaldagskrána, jafnvel báðar samtímis, svo að annað kemst illa að þessa fimm daga sem veislan stendur yfir árlega.

Megas og Grísalappalísa Iceland Airwaves 2014 b

Frá tónleikum Megasar og Grísalappalísu

Airwaves fær æ meiri athygli hér heima (og auðvitað erlendis) og fjölmiðlarnir sinna hátíðinni af sífellt meiri áhuga, það má segja að miðbærinn fari á hvolf meðan á hátíðinni stendur þar sem hópar tónleikagesta í formi skrautlegra karaktera í misgóðu ásigkomulagi flæða um göturnar innan um aðra felmtri sleginna túrista sem eiga sér einskis ills von, margir bera bakpoka með nesti til dagsins (bjór) og hafa myndavélar hangandi um hálsinn og það er varla hægt að ímynda sér þann fjölda þúsunda mynda sem teknar eru á þessum vettvangi. Þó að umgengnin sé almennt góð um tónleikastaðina þá fyllast göturnar í Kvosinni og að Hörpunni af ógrynni bjórdósa kvöld hvert og maður getur svosem ímyndað sér álagið í Endurvinnslunni dagana eftir Airwaves. Og almennt haga tónleikagestir sér mjög vel, það er ekki fyrr en eftir klukkan eitt sem drykkjulætin verða tónleikaáhuganum yfirsterkari allavega úti við. En Airwaves er alltaf jafn frábær.

Sindri Már Sigfússon 2014

Sin Fang

Mér telst að ég hafi séð eitthvað á þriðja tug viðburða á hátíðinni í ár, nú sem fyrr einbeitti ég mér að íslenskum flytjendum og það er engum vafa undirorpið að einn atburður stendur upp úr í mínum huga, gigg meistara Megasar og hljómsveitarinnar Grísalappalísu í Gamla bíói á fimmtudagskvöldinu. Gamla bíó hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga, búið er að hreinsa út alla stóla svo úr er orðinn stór standandi tónleikasalur. Og svo er auðvitað pláss uppi. Í mjög stuttu máli má segja um þessa tónleika Megasar og Grísalappalísu að þeir hafi boðið upp á mikla skemmtun, tónlist Grísalappalísu mætti skilgreina sem saxapönk sem er bæði frumlegt og hressandi, þeir eru hvorki fágaðasta band í heimi né bestu spilararnir en spilagleðin smitar alla sem á hlýða. Þeir notuðu fyrsta lagið til að komast í gang, kannski eins og smá feimni við Megas en síðan var ekki aftur snúið og keyrslan varð algjör. Megas var á stundum líkt og illa gerður hlutur á sviðinu við hliðina á látunum í sveitinni (ekki gleyma að hann er verður sjötugur á næsta ári) en samt passaði hann svo vel inn í heildarmyndina. Hámarkinu að mínu mati var náð með laginu Svo skal böl bæta. A plús fyrir þetta.

Dj flugvél og geimskip Steinunn Harðardóttir

Dj flugvél og geimskip

Til að nefna fleiri minnisstæða viðburði vil ég geta tónleika Sin Fang í Hafnarhúsinu á fimmtudagskvöldið, þar var stemmingin góð og bandið (Sindri Már með tvo trymbla) frábært, einnig nefni ég tónleika Mugison í Silfurbergi á föstudagskvöldinu en þar fóru þeir félagar á kostum reyndar eins og alltaf þegar þeir spila, spilagleðin er algjör. 1860 gerðu það gott á miðvikudagskvöldinu í Silfurbergi, voru fyrstir á svið þar og léku á alls oddi, Geislar komu á óvart með sinn bræðing í Norðurljósum á fimmtudaginn og Sigríður Thorlacius staðfesti að hún er með allra bestu söngkonum. Prins póló skemmti sér og öðrum í Gamla bíói á laugardagskvöldinu, Vök var í Norðurljósum á föstudagskvöldinu og var flott, Halleluwah sömuleiðis í Iðnó á laugardagskvöldinu og Dj flugvélar og geimskip (Steinunn Harðardóttir) með sitt súrrealíska geimpopp var algjörlega að gera sig á Fredriksen, og allir sem hana sáu tóku þátt í gleðinni með henni. Á svoleiðis giggum gengur enginn út.

Annað sem undirritaður sá var t.d. Vio, Fufanu, Mr. Silla, Kira Kira, Ásgeir Trausti, Kría Brekkan, Leaves og Benny Crespo‘s Gang svo einhver nöfn séu nefnd og aðeins þessi upptalning og þessi að ofan sýna hversu fjölbreytilegt úrval tónleikagestir hafa úr að velja.

Auðvitað eru viðburðir á Airwaves misgóðir, misskemmtilegir og misáhugaverðir en það er þetta val sem er svo skemmtilegt, að geta valið um þennan fjölda tónleika og séð á einu bretti rjómann af tónlistarlífinu á Íslandi á einum stað. Og þetta er ekki bara hátíð hipsteranna, þetta er fyrir alla sem hafa gaman af tónlist. Þess vegna gef ég hátíðinni í ár fimm stjörnur og mun líklega alltaf gera.