Tónlistardagar Dómkirkjunnar

Dómkórinn í Neskirkju 2014

Dómkórinn flytur Requiem eftir G. Fauré í Neskirkju

Tónlistardagar Dómkirkjunnar eru nú haldnir í þrítugasta og annað skiptið en þeir hafa verið á dagskrá kórsins samfleytt frá árinu 1982.

Dagskráin hófst í gær, 2. nóvember með hátíðarmessu í Dómkirkjunni og með tónleikum í Neskirkju um kvöldið þar sem Dómkórinn undir stjórn Kára Þormar flutti Requiem eftir franska tónskáldið G. Fauré, einsöngvarar voru Fjölnir Ólafsson og Hallveig Rúnarsdóttir en orgelleikari hin tékkneska Lenka Mateóva.

Dagskrá Tónlistardaganna heldur áfram sem hér segir:

Mánudagskvöldið 3. nóvember kl. 20:00  verða orgeltónleikar í Dómkirkjunn, Eyþór Franzson Wecner flytur verk eftir J.P. Sweelinck, W.A. Mozart, R. Schumann, J.S. Bach og Niels W. Gade.

Þriðjudagskvöldið 4. nóvember kl. 20:00 verða einsöngstónleikar í Dómkirkjunni, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Jónas Ingimundarson flytja verk eftir ýmsa höfunda, íslenska sem erlenda.

Sunnudagsmorguninn 9. nóvember kl. 11:00 verður hefðbundin messa í Dómkirkjunni.

Síðar þennan sama sunnudag (9. nóvember) kl. 17:00 verða tónleikar undir yfirskriftinni Brass og orgel, þá leika Jóhann Stefánsson trompetleikari, Óðinn Melsteð trompetleikari, Einar Jónsson básúnuleikari, Guðmundur Vilhjálmsson básúnuleikari og Kári Þormar orgelleikari.

Tónlistardögum Dómkirkjunnar lýkur miðvikudagskvöldið 12. nóvember kl. 20:00 með lokatónleikum í Dómkirkjunni, um er að ræða frumflutning á sex nýjum íslenskum verkum eftir Árna Berg Zoëga, Ásbjörgu Jónsdóttur, Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, Georg Kára Hilmarsson, Soffíu Björgu Óðinsdóttur og Örn Ými Arason. Dómkórinn flytur undir stjórn Kára Þormar. Einnig verður verkið Stabat Mater eftir Jónas Tómasson frumflutt en það er í flutningi Hönnu Dóru Sturludóttur messósópran, Ármanns Helgasonar klarinettuleikara, Kjartans Óskarssonar klarinettuleikara og Sigurðar Snorrasonar klarinettuleikara.