Tónleikar í Dómkirkjunni á aðventunni

Dómkirkjan í Reykjavík

Dómkirkjan í Reykjavík

Tónleikadagskrá Dómkirkjunnar verður með eftirfarandi hætti fram til jóla.

Á föstudagskvöldið 19. desember klukkan 20:00 verða jólatónleikar Tónlistarskólans í Reykjavík. Efnisskráin er afar fjölbreytt og verður boðið upp á úrval af því besta úr vetrarstarfinu. Leikin verða verk eftir W.A. Mozart, I. Clarke, A. Piazzolla, E. Dohnaniy, C. Saint-Saëns, G.F. Händel, J. Chr. Bach, L. Anderson og G. Gabrielli. Á tónleikunum munu hljóma blásarakvintettar, píanótríó, strengjatríó, sönglög og flautukór svo eitthvað sé nefnt en dagskráin tekur aðeins um klukkustund. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Sunnudagskvöldið 21. desember kl. 22:00 verða jólatónleikar Dómkórsins, stjórnandi er Kári Þormar dómorganisti. Óhætt er að fullyrða að það verða dásamlegir tónleikar en í huga margra eru jólatónleikar Dómkórsins í dimmasta skammdeginu ómissandi hluti aðventu og jólaundirbúningsins.  Tilvalið að ljúka amstri þessa dags með því að njóta jólatónlistar í Dómkirkjunni. Aðgangur á tónleikana er ókeypis.

Og á mánudagskvöldið 22. desember kl. 21:00 heldur kammerhópurinn Camerartica sína árlegu kertatónleika. Hópurinn hefur leikið ljúfa tónlist eftir Mozart í tuttugu og tvö ár og þykir mörgum ómissandi að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu. Hópinn skipa að þessu sinni þau Ármann Helgason klarinettuleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari, Bryndís Pálsdóttir fiðluleikari, Svava Bernharðsdóttir lágfiðluleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari. Á dagskránni eru tvær af perlum Mozarts „Eine kleine Nachtmusik“ (Kv. 525) og Klarinettukvintettinn (K 581).  Að venju lýkur tónleikunum á því að Camerarctica leikur jólasálminn góða, „Í dag er glatt í döprum hjörtum“.  Tónleikarnir eru um klukkundar langir og er aðgangseyrir kr. 2500, kr. 1500 fyrir nemendur og eldri borgara og frítt inn fyrir börn. Miðasala er við innganginn.