Áframhaldandi partí með afturhvarfi til eitísins

FM belfast – Brighter days 
World Champion Records RECD037 (2014) 

4 stjörnur

FM belfast - Brighter days

FM Belfast – Brighter days

FM Belfast var stofnuð af þeim Árna Rúnari Hlöðverssyni og Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur haustið 2005 en þau höfðu komið víða við í listalífinu reyndar eins og Árni Vilhjálmsson og Örvar Þóreyjarson Smárason sem komu inn síðar en lengst af hafa þau fjögur skipað bandið, fleiri hafa haft viðkomu í FM Belfast og enn fleiri hafa verið aðstoðarfólk á plötum og tónleikum þannig að listinn er langur. Erfitt er að skilgreina tónlistina sem sveitin spilar, líklega mætti kalla hana dansvænt partídiskó, en hún hefur haft orð á sér að vera skemmtilegt tónleikaband sem fær áhorfendur léttilega í lið með sér.

Sveitin sendi í vor frá sér sína þriðju plötu, Brighter days sem hér er til umfjöllunar, en þau hafa gefið út breiðskífur með þriggja ára millibili frá 2008, sem hafa fengið góðar viðtökur.

Við fyrstu hlustanir fannst mér vanta partístuðsmelli á borð við I don‘t want to sleep either, Par avion og Synthia sem sveitin hafði áður sent frá sér en við nánari hlustun vann Brighter days á og ég gekk mun sáttari frá borði. platan byrjar ekki með neinum látum en með Delorean kveður við nýjan tón og þar má jafnvel þótt ótrúlegt megi virðast heyra kántrí eða blúgrass fiðlufíling, sem fittar líka þetta alveg ljómandi inn í tónlistina. Í kjölfarið kemur Holiday og enn lifnar yfir Brighter days, We are faster than you kemur líka sterkt inn og er brassið algjörlega að gera sig í því og fyrrnefndu Holiday. Brighter days endar síðan á Unicef laginu Öll í kór, sem þarna hefur fengið titilinn The end, ég er ekki frá því að FM Belfast nái þar jafnvel að fanga eitísið enn betur en Motion boys gerðu hér um árið, enda sveitirnar heldur ekki með öllu óskyldar. Frábær endir á góðri plötu.

Heilt yfir má segja að platan sé góð þótt hún byrji ekki með neinni flugeldasýningu, hún vinnur hins vegar á og á því algjörlega inni að hún fái nokkrar hlustanir áður en dæmt er um. Sveitin vinnur áfram í því sem þau hafa gert áður og því er ekki um neina stefnubreytingar að ræða, fyrst og fremst að gera það sem þau gera vel.

Plötuumslagið er í anda sveitarinnar mínus litadýrðin, en ágætlega heppnað.