Glatkistan.is – nýr vefur um íslenska tónlist

G2Glatkistan.is er nýr íslenskur tónlistarvefur. Vefurinn mun hafa að geyma ýmsar fréttir tengdar íslensku tónlistarlífi, greinar um íslenska tónlist, plötuumfjallanir, textasafn, tenglasafn og margt fleira sem þykir sjálfsagt á slíkum tónlistarmiðli en er á engan hátt hugsaður sem einhvers konar samkeppni til höfuðs þeim síðum sem bjóða upp á tónlist til hlustunar eða sölu.

Rúsínan í pylsuenda Glatkistunnar er Gagnagrunnurinn sem er hugsaður sem eins konar safn upplýsinga um íslenskt tónlistarlíf frá öndverðu til okkar daga. Þar mun fólk getað flett upp þeim tónlistarmanni eða flytjanda, óháð því hvort viðkomandi hefur gefið út efni eður ei, og lesið sig til um hann. Auðvitað er slíkur gagnagrunnur botnlaus hít sem endalaust er hægt að flétta við enda hugsaður til þess eins að varðveita sögu íslenskrar tónlistar í hvaða formi sem hún kann að vera, um ókomna tíð. Fyrst um sinn verður áherslan lögð á eldri tónlist í Gagnagrunninum.

Glatkistan.is mun verða gagnvirkur vefur að því leyti að lesendur geta sent inn efni, gert athugasemdir og/eða leiðréttingar við Gagnagrunninn, og síðast en ekki síst sent inn upplýsingar um tónleika eða tónlistarviðburði á döfinni framundan.

Vonandi verður þessi vefsíða til að auka og viðhalda áhuga almennings á íslenskri tónlist en um leið fyrst og fremst til að varðveita sögu hennar.