Sororicide (1989-95)

Sororicide

Dauðarokksveitin Sororicide skipar stóran sess í þeirri vakningu sem varð á Íslandi í þungu rokki í kringum 1990, þótt sveitin væri ekki endilega sú fyrsta til að leika slíka tónlist þá ruddi hún ákveðna braut með sigri í Músíktilraunum (reyndar undir nafinu Infusoria), gaf út plötu fyrst slíkra sveita og var þannig í fararbroddi þeirrar stefnu næstu árin.

Sveitin var stofnuð í Réttarholtsskóla haustið 1989 af þeim Gísla Sigmundssyni söngvara og bassaleikara og Guðjóni Óttarssyni gítarleikara, þeir fengu fljótlega til liðs við sig annan gítarleikara og trommuleikara en nöfn þeirra eru ekki kunn. Þeir stöldruðu hins vegar ekki lengi við og í stað þeirra komu Karl Ágúst Guðmundsson trommuleikari og Fróði Finnsson gítarleikari. Þeir félagar munu fyrst hafa fengist við það sem kallað er trashmetal en tónlistin þróaðist fljótlega yfir í deathmetal.

Sveitin sem hafði fengið nafnið Sororicide kom líklega fyrst fram á tónleikum í Hafnarfirði sumarið 1990 og lék sveitin töluvert í framhaldinu, m.a. á Rykkrokk-tónleikunum síðsumars. Um haustið tóku þeir upp nafnið Infusoria og undir því nafni tók sveitin þátt í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1991. Sveitin var á þeim tíma orðin vel sjóuð og vön að koma fram og komust léttilega í úrslitin og unnu svo reyndar Músíktilraunirnar í kjölfarið en sannkallaður metal-andi sveif þar yfir vötnum og flestar keppnissveitirnar voru í svipuðum tónlistarhugleiðingum.

Sigur hljómsveitarinnar í Músíktilraunum hafði margvísleg áhrif og hleypti miklu lífi í rokksenuna, fjölmargar sveitir í þessum geira til viðbótar þeim sem keppt höfðu í Músíktilraununum voru stofnaðar af ungum hljóðfæraleikurum víða í bílskúrum höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar og eins konar vakning varð í kjölfarið þar sem hraða- og taktbreytingar auk rymjandi söngvara einkenndu tónlistina – sú tónlist var all áberandi næstu tvö árin eða svo.

Sororicide 1992

Fljótlega eftir úrslit Músíktilraunanna hafði Infusoria breytt nafni sínu aftur í Sororicide og undir því nafni spilaði sveitin heilmikið um sumarið og meðal annars á bindindismóti í Galtalæk um verslunarmannahelgina og svo á Rykkrokk tónleikunum eins og árið á undan. Þá hafði nýr liðsmaður gengið í Sororicide, söngvarinn Bogi Reynisson og söng hann með sveitinni í plötuupptökum en meðal verðlauna í Músíktilraunum höfðu verið hljóðverstímar sem þeir nýttu um haustið.

Platan kom svo út fyrir jólin 1991 og markaði tímamót í íslenskri tónlist því þar var á ferð fyrsta íslenska deathmetal-platan en hún var gefin út af Hilmari Erni Hilmarssyni (HÖH) undir útgáfumerkinu Platonic records. Tónlistin var öll á ensku enda var markmiðið hjá þeim félögum að herja á erlendan markað með tónlist sinni. Skífan hlaut nafnið The Entity og reyndar kom bæði út tíu laga vínylplötu-útgáfa og tólf laga geisladiska-útgáfa af henni, líklega fimm hundruð eintök af hvoru – alls þúsund eintaka upplag. Hún seldist í um níu hundruð eintökum sem þótti afar gott af sveit af þessu tagi og síðan þá hefur hún verið endurútgefin og einnig hafa komið út bootlegs-útgáfur af henni á ýmsu formi víða um heim. The Entity hlaut jafnframt góðar viðtökur gagnrýnenda, platan fékk þannig mjög góða dóma í Vikunni, Þjóðviljanum og Morgunblaðinu, og var ofarlega í ársuppgjöri blaðanna um áramótin.

Sororicide hélt áfram að spila nokkuð þétt á tónleikum um veturinn en snemma árs 1992 hætti Bogi og tók Gísli þá aftur við söngnum sem hann hafði sinnt í upphafi. Þegar voraði birtust fréttir þess efnis að ný plata með sveitinni væri í burðarliðnum og kæmi út um haustið, þeir félagar einbeittu sér þó að spilamennskunni um sinn og léku um sumarið oft meðal stærstu nafnanna í íslenskri tónlist, m.a. á risatónleikunum Bíórokki, óháðu listahátíðinni Loftárás á Seyðisfjörð, og á Eldborg ´92 um verslunarmannahelgina enda stóð dauðarokksenan sem hæst um það leyti. Þrátt fyrir fyrirheit kom engin plata út um haustið en hins vegar kom út eins konar safnplata með Sororicide, In memoriam og Strigaskóm nr. 42 undir nafninu Apocalypse en hver sveit átti þar þrjú lög. Það var Skífan sem gaf þessa plötu út, þá fyrstu og einu sinnar tegundar sem Skífan kom nálægt, sveitirnar þrjár komu m.a. saman og spiluðu af þessu tilefni.

Sororicide

Árið 1993 héldu þeir Sororicide-liðar áfram að vera virkir á tónleikasviðinu, sveitin lék bæði á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel eitthvað úti á landsbyggðinni og um sumarið lék sveitin á stærri tónleikum eins og á óháðu listahátíðinni Ólétt ´93 og hinni árlegu Rykkrokk.

Um haustið var sú rokkvakning sem sveitin var svo stór hluti af farin að þynnast nokkuð út og um sumarið hafði Karl trommari yfirgefið sveitina til að ganga í Kolrössu krókríðandi sem hafði sigrað Músíktilraunir 1992, í stað Karls kom Unnar Snær Bjarnason. Nokkru áður hafði Fróði gítarleikari hætt og gengið til liðs við hina skammlífu SSSpan sem einnig hafði að geyma Boga fyrrum söngvara Sororicide, í Fróða stað kom Arnar Guðjónsson.

Sveitin fór í hljóðver með hina nýju skipan og tók upp nokkur lög en að öðru leyti fór lítið fyrir henni næstu mánuðina, hún sendi þó frá sér þriggja laga kassettu í takmörkuðu upplagi undir heitinu Demo 1 og síðla árs 1993 kom svo út fjögurra laga split plata ásamt bresku sveitinni Chorus of ruin, gefin út af finnska útgáfufyrirtækinu Rising realm records.

Svo virtist sem Sororicide væri að hætta störfum þegar þeir félagar lýstu því yfir í aðdraganda tónleika í norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð þar sem sveitin var að spila um vorið 1994, að það yrðu síðustu tónleikar sveitarinnar. Það átti þó eftir að breytast því að í kjölfar útgáfu splitplötunnar sýndi breska jaðarútgáfan Resurrection records áhuga á að gefa út plötu með sveitinni. Það blés lífi í Sororicide og sveitin starfaði eitthvað áfram, í blaðaviðtali sögðust þeir félagar einnig hafa fengið hvatningu í formi nokkur hundruð bréfa sem aðdáendur sveitarinnar erlendis höfðu sent sveitinni. Um haustið 1994 varð íslenska tónlistarsamfélagið og einkum þó jaðarhluti þess fyrir miklu reiðarslagi er Fróði Finnsson fyrrverandi gítarleikari sveitarinnar lést aðeins nítján ára gamall eftir veikindi.

Sororicide var þrátt fyrir að hafa hætt við að hætta árið 1994 lítt virk næstu mánuðina og spilaði af því er virðist aðeins einu sinni árið 1995, á minningartónleikum um Fróða um vorið og eftir það var sveitin alveg hætt störfum.

Sororicide árið 1993

Dauðarokksenan hafði fjarað út og meðlimir sveitarinnar sneru sér að öðrum verkefnum, sumir fóru í léttari tónlist en aðrir hættu spilamennsku. Það var svo um aldamótin að eins konar endurvakning eða upprisa varð í þungu rokki sem hefur síðar hefur verið kallað harðkjarni – afsprengi pönks og þungs rokks. Óútgefið lag (Deathless) með Sororicide var grafið upp af því tilefni og gefið út á safnplötunni MSK af samnefndu útgáfufyrirtæki í eigu hljómsveitarinnar Mínus, og sumarið 2000 kom sveitin saman á nýjan leik til að leika á tónlistarhátíðinni Reykjavík Music Festival. Þeir Gísli söngvari og bassaleikari, Unnar Snær trommuleikari og gítarleikararnir Frosti Logason og Bjarni Sigurðarson úr Mínus skipuðu sveitina það sumar, Gísli var þá eini upprunalegi meðlimur Sororicide. Sveitin starfaði eitthvað áfram fram á árið 2001, líklega í þessari mynd þótt ekki færi mikið fyrir henni og líklega var tónlistin þá nær hardcore rokkinu en death metal stílnum.

Enn leið tíminn og sveitin átti eftir að birtast aftur sumarið 2009 þegar sænska sveitin Entombed kom hingað til lands til tónleikahalds en Sororicide var þá fengin til að hita upp fyrir þá. Þar fór sveitin á kostum og var ekki laust við að raki myndaðist í augnhvörmum sumra gamalla dauðarokkara, kombakkið var í árslok valið tónleikaviðburður ársins hjá Morgunblaðinu – því miður finnast ekki upplýsingar um hverjir skipuðu sveitina í þessari endurkomu. Neistinn hafði verið kveiktur og Sororicide starfaði eitthvað áfram, fram á nýtt ár 2001 og lék þá á Andkristnihátíð um vorið og svo á Eistnaflugi í Neskaupstað um sumarið. Eftir það virðist sem sveitin hafi hætt endanlega og hefur ekki heyrst frá henni síðan.

Um það leyti sem sveitin var endurreist árið 2009 kom út smáskífa með Sororicide, þriggja laga skífa með lögunum af splitskífunni með Chorus of ruin (1993) og laginu af MSK-safnplötunni. Það sama ár bárust fréttir af því að vinyl-eintak af upprunalegu útgáfu plötunnar The Entity hefði selst á kr. 500.000 sem er líklega allra hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir íslenska plötu, The Entity er orðin að fágætum safngrip og var gangverðið á plötunni um það leyti kr. 250.000 og þá gilti einu hvort um vinyl- eða geisladiskaútgáfu var að ræða.

Sem fyrr segir hefur Entity verið endurútgefin en jafnframt hafa verið gefin út sjóræningja upplög af plötunni allt fram á síðustu ár, bæði á vinyl, cd og kassettuformi víða um lönd t.a.m. í Tékklandi og Indónesíu, þær útgáfur hafa sumar hverjar verið með ýmsu aukaefni s.s. af þeim split-, smá- og safnskífum sem komið hafa út með sveitinni.

Efni á plötum