Fróði Finnsson (1975-94)

Fróði Finnsson

Tónlistarmaðurinn Fróði Finnsson vakti töluverða athygli á stuttri ævi sinni en þegar hann lést aðeins nítján ára gamall hafði hann komið við sögu nokkurra hljómsveita sem voru framarlega í þeirri í rokksenu í þyngri kantinum sem var um það leyti að springa út um og upp úr 1990.

Fróði fæddist sumarið 1975 en hann var sonur tónlistarfólksins Finns Torfa Stefánssonar tónskálds og gítarleikara Óðmanna o.fl. og Eddu Þórarinsdóttur söng- og leikkonu sem m.a. söng með Þremur á palli, þannig að hann hafði ekki langt að sækja tónlistaráhuga og -hæfileika. Enda fór svo að hann fór á unglingsaldri að leika á gítar og trommur með hinum og þessum hljómsveitum. Þekktust þeirra var án vafa hljómsveitin Infusoria sem sigraði Músíktilraunir vorið 1991 og gekk síðar undir nafninu Sororicide, en einnig má nefna misþekktar sveitir sem hann lék með um lengri og skemmri tíma s.s. SSSpan, Texas Jesús, Clostrophobia under my foreskin, Torture og Xerox. Fróði átti sér jafnframt draum um að verða tónskáld.

En Fróða naut ekki lengi við, þegar hann var aðeins fimmtán ára gamall veiktist hann af krabbameini sem átti eftir að draga hann til dauða um fjórum árum síðar, haustið 1994 en hann var þá á tuttugasta aldursári. Tónlistarbransinn syrgði Fróða enda var hann einkar hátt metinn meðal yngi tónlistarmanna þar sem hann verið í fararbroddi í þeirri rokksenu sem þá var í gangi. Minningartónleikar voru haldnir um hann í Þjóðleikhúsinu þá um haustið þar sem fjöldinn allur af tónlistarfólki á öllum aldri og úr öllum stigum tónlistargeirans kom fram, og síðan hafa tónleikar reglulega verið haldnir til minningar um Fróða og hefur ágóðinn af þeim einatt runnið til krabbameinsjúkra barna.

Ekki eru til margar upptökur með Fróða gefnar út á plötum, þó má nefna hér plötuna The Entity með Sororicide auk nokkurra laga á safnplötum, þá samdi hann einnig lög sem komu m.a. út á plötu Texas Jesús og safnútgáfum. Þess má geta að tónverk Finns Torfa föður Fróða, Hljómsveitarverk IV, er samið í minningu Fróða.