Frostrósir [2] (1978-80)

Ballhljómsveit sem bar nafnið Frostrósir starfaði á höfuðborgarsvæðinu, líklega 1978 til 80. Sveitin er sérstök að því leyti að tónlist hennar þróaðist í allt aðra átt og varð síðar að nýbylgjusveit í drungalegri kantinum sem bar nafnið Þeyr.

Frostrósir var stofnuð upp úr sveit sem bar nafnið Hattímas en í þeirri sveit voru þeir Sigurður Jónsson gítarleikari (síðar saxófónleikari m.a. í Milljónamæringunum) Birgir Mogensen bassaleikari, Benedikt Guðmundsson píanóleikari, Jón Ragnar [?] gítarleikari og Sigtryggur Baldursson trymbill, ekki er víst að allir framangreindu hafi verið meðlimir Frostrósa en fljótlega bættist söngkonan Elín Reynisdóttir í hópinn.

Sveitin starfaði líklega í um tvö ár undir þessu nafni og herjaði á dansleikjamarkaðinn – aðallega á höfuðborgarsvæðinu, lék á árshátíðum og þess konar samkomum, sveitin þróaðist svo smám saman í átt til eins konar nýbylgju og þegar henni bauðst að gera plötu undir merkjum SG-hljómplatna breyttist nafn hennar í Þeyr, það var 1979 en sveitin lék eitthvað áfram fram á árið 1980 undir Frostrósa-nafninu. Meðlimir fyrstu útgáfu hinnar nýju sveitar voru auk Sigtryggs og Elínar, þeir Hilmar Örn Agnarsson bassaleikari, Jóhannes Helgason gítarleikari, Magnús Guðmundsson söngvari og hljómborðsleikari og Eiríkur Hauksson söngvari. Ekki liggur fyrir á hvaða tímapunkti þessar mannabreytingar urðu á ferli sveitarinnar.