Nöfn íslenskra hljómsveita II: – Unglingamenningin tekur völdin

Hér verður fjallað um nöfn hljómsveita á Íslandi, af nógu er að taka og því er rétt að skipta umfjölluninni í nokkrar minni greinar. Þessi annar hluti fjallar um bítlanöfnin og þá einkum sjöunda áratuginn. 

Bítlagarg
The Beatles 1963

The Beatles 1963

Áður en bítlatónlistin barst til Íslands höfðu annars konar straumar haft hér viðkomu, rokkið kom hingað fyrir alvöru 1956 og 57 og lifði þrátt fyrir spá margra um skammvinna tískubólu, twistið, gítarrokkið með Shadows í broddi fylkingar og nokkrar aðrar tónlistartegundir komu og fóru og höfðu sín áhrif á undan bítlinu en stóra sprengingin kom með hinum bresku The Beatles.

Þegar bítlið kom til sögunnar breyttist ekki einungis tónlistin heldur hafði það mikil áhrif á unglingamenningu, ungt fólk (mestmegnis piltar í byrjun) hófu að hlusta á tónlist með öðrum hætti en áður hafði verið og hljómsveitir spruttu upp um allt land, í víðara samhengi má segja að allt sem viðkom unglingum hafi breyst, þar með talsmáti, siðir og venjur, fas, tíska og frelsi svo eitthvað sé nefnt. Tónlistin var aðeins hluti af þessu en það var stór hluti.

Nöfn hljómsveita höfðu til þess tíma verið harla fábrotin eins og kemur fram í Nöfn íslenskra hljómsveita I: – Upphafið og fábreytnin en þarna varð bylting eins og í svo mörgu. Almennt er talað um Hljóma sem fyrstu íslensku bítlasveitina (1963) en það er ekki alls kostar rétt, margar bítlasveitir höfðu komið og farið – Hljómar urðu hins vegar fyrstir til að hljóta landsfrægð og var iðulega í broddi fylkingar bítlasveita hérlendis.

-ar og -ó tískubylgjan
Tónar

Hljómsveitin Tónar

Þegar rýnt er í nöfn sveitanna (það mun vera mikil einföldun að kenna allar sveitir þess tíma við Beatles) kemur berlega í ljós að tvenns konar nafnaviðskeyti ráða ríkjum, -ar og –ó.

-ar endingin er þó öllu algengari og þar ber auðvitað fyrst að nefna hina keflvísku Hljóma sem komu fram á sjónarsviðið haustið 1963 sem fyrr segir, um svipað leyti komu fram Geislar, Lubbar, Bassar, Hrafnar, Logar og Rofar svo dæmi séu tekin en ekki virtist landsbyggðin vera frábrugðin höfuðborgarsvæðinu hvað þetta varðar, -ar endingin átti alls staðar við. Í kjölfarið komu sveitir eins og Blossar, Dátar, Drekar, Eldar, Faxar, Fjarkar, Fónar, Gautar, Glampar, Gneistar, Gosar, Haukar, Hrókar, Kjarnar, Landar, Laxar, Ljómar, Lómar, Mánar, Neistar, Ómar, Papar, Pólar, Ryðmar (Rythmar), Röðlar, Sónar, Straumar, Stælar, Textar, Tíglar, Tónar, Treflar, Víbrar og Þyrnar en önnur nöfn voru vinsælari en önnur, til dæmis voru Stormar bæði í Vestmannaeyjum og Siglufirði (og þóttu eflaust viðeigandi í sjávarplássunum), tvær sveitir hétu Geislar og þrjár báru nöfnin Lubbar, Taktar og Skuggar, síðastnefnda heitið hefur vafalítið haft meiri skírskotun til Shadows en Beatles. Bókmenntatengingin var heldur ekki langt undan, til dæmis voru til bæði Sturlungar og Bóluhjálmar.

Póló

Póló

Annað afbrigði af þessum endingum hljómsveita var -ir endingin, sú var öllu sjaldgæfari en þó má nefna sveitir eins og Berkir, Engir, Ernir (tvær sveitir) og Strengir.

Af allt öðrum toga voru sveitir sem enduðu nöfn sín á -ó. Sé -ó endingin skoðuð má sjá margs konar útfærslur af því, í fyrri grein voru nefndar Alto, Diskó og Dúmbó sem allar báru viðskeyti eins og -kvintett eða -sextett en síðar komu til sögunnar sveitir án slíkra viðskeyta, eins og Astro, Bimbó, Bravó, Como, Ecco, Ecko, Júbó, Júmbó, Júnó, Kombó, Limbó, Nemó, Ómó, Plató, Póló, Ríó, Rómó og Sóló, þær báru allar tveggja atkvæða nöfn sem var algengasta formið en þriggja atkvæða útfærslan, Bambínó, Fíaskó og Stereó, var öllu sjaldséðari. Það sem er hins vegar mest einkennandi við þær sveitir sem bera þessa -ó endingu, er alþjóðlegi bragurinn yfir nöfnunum. Flest nöfnin eru eins konar íslenskun á erlendum orðum eða nöfnum og því eru þær sveitir í raun fyrstu sveitirnar sem bera erlend nöfn ásamt þeim sem hafa endinguna -et/-es s.s. Comet / Kómet, Flowers, Foxes og Sonet, -on/-or endinguna sbr. Action, Facon, Falcon (tvær sveitir), Óríon, Trixon og Amor. -ic/-ik(s)/-ix endingin er einnig angi af þessari alþjóðavæðingu, þar má sjá dæmi eins og Beatniks (tvær sveitir), Bendix, Pónik (tvær sveitir), Spútnik, Toxic og Trix. Svo voru aðrar sveitir sem fóru alla leið með ensku heitin, eins og Blackbird, Diamonds, Mods o.s.frv. en það varð þó ekki tiltölulega algengt fyrr en að loknu bítlaskeiðinu, þ.e. þegar hippisminn tekur við og tónlistin þyngist til muna.

Gömlu nöfnin héldu dampi

Þótt hér að ofan hafi verið rætt um algengustu tegundir hljómsveitanafna til ca. 1968-70 má ekki gleyma að „gömlu“ nöfnin sem fjallað er um í Nöfn íslenskra hljómsveita I: – Upphafið og fábreytnin lifðu áfram góðu lífi, þau þóttu hins vegar ekki lengur móðins og voru þær sveitir stimplaðar gamaldags af kynslóð sem var að upplifa eitthvað nýtt og alveg sérstakt, bæði tónlistarlega og ekki síður í samfélagslegu samhengi. Þannig voru áfram til sextettar, kvintettar og þess háttar nöfn en einnig bættust við skyld afbrigði s.s. Heiðursmenn, Nesmenn, Axlabandið og Busabandið.

Þá eins og síðar voru til flipparar (þótt það hugtak yrði ekki notað fyrr en löngu síðar) sem brutu algjörlega upp formið, nöfn eins og Blóm afþökkuð (til höfuðs Flowers?), Þeir, Scream og fleiri, slík nöfn voru forsmekkurinn fyrir það sem síðar kom þegar fjölbreytileikinn varð algjör og bítla/hippakynslóðin auðgaði hugmyndaflugið með neyslu vímuefnanna sem síðar voru bönnuð. Eftir 1970 er því tilgangslaust að skipta nöfnum hljómsveita eftir tímabilum heldur miklu fremur eftir merkingu eða hljóðan þar sem allt var leyfilegt.