Nöfn íslenskra hljómsveita V: – Horft til bókmenntanna (síðari hluti)

Hér verður fjallað um nöfn hljómsveita á Íslandi, af nógu er að taka og því er rétt að skipta umfjölluninni í nokkrar minni greinar. Í þetta skiptið er rýnt í bókmenntir og hvernig þær hafa áhrif á íslenska tónlistarmenn við val á hljómsveitanöfnum. Hér er um að ræða síðari grein af tveimur um bókmenntir og fjallar hún um tengingu íslenskra hljómsveita við barnabókmenntir og teiknimyndasögur. 

Munurinn á hljómsveitum, sem annars vegar tengja sig við bókmenntir sem höfða fremur til fullorðinna og hins vegar þær sem nefna sig eftir barnabókmenntum eða teiknimyndasögum, þarf ekki endilega að vera tónlistarlegs eðlis en segir kannski meira til um hvers konar bókmenntir meðlimir þeirra eru hallir undir, þeir sem kenna sig við síðarnefnda þáttinn taka sig kannski síður alvarlega og þar liggur ef til vill helst munurinn – eða ekki. Það er þó ekki til umræðu hér.

Bókmenntir tengdar yngstu lesendunum
Winnie the pooh

Winnie the pooh

Áhrif enska barnabókahöfundarins Enid Blyton voru mikil á margar kynslóðir Íslendinga en færri ungir lesendur þekkja hana í dag, hún var einna þekktust fyrir bækurnar um Fimm fræknu og Ævintýrabækurnar en hún samdi einnig bækurnar um Dodda litla, sem meðlimir hljómsveitarinnar Doddi og Eyrnastór hafa án efa legið yfir.

Fáir þekkja aftur á móti barnabókahöfundinn Alan Alexander Milne en flestir þekkja hins vegar persónu hans, Bangsímon eða Winnie the Pooh, íslenskar hljómsveitir hafa borið bæði nöfnin. Fíllinn Babar eftir Jean de Brunhoff á samnefndan fulltrúa meðal sveita sem og Barbapapa, sem Annetta Tison og Talus Taylor gerðu frægan fyrir áratugum síðan. Róbert bangsi var vinsæl persóna í barnatímum sjónvarpsins á áttunda áratug síðustu aldar og hér á landi komu út þrjár plötur þar sem Ruth Reginalds var í hlutverki bangsans, um líkt leyti var þjóðlagasöngflokkur undir þessu sama nafni og ríflega áratug síðar birtist hljómsveitin Róbert bangsi í 75 ár.

Norrænar barnabókmenntir

Mikki refur (úr leikritinu Dýrunum í Hálsaskógi) er eflaust ein þekktasta og skemmtilegasta persóna hins norska Thorbjörns Egner en hljómsveit með því nafni var lengi húshljómsveit á Gauki á Stöng seint á níunda áratug liðinnar aldar, rafsveitin Karíus og Baktus sótti einnig nafn sitt til Egners. Rassálfarnir er önnur sveit byggð á norrænum bókmenntagrunni en það voru kvikindi sem Astrid Lindgren skóp og birtust í sögunni um Ronju ræningjadóttur. Ekki er hægt að segja skilið við Norðurlöndin án þess að nefna harðkjarnasveitina Hemúl en Hemúllinn var persóna í Múmínálfum hinnar finnsk/sænsku Tove Jansson.

Klassískar barnabókmenntir
Basil fursti

Basil fursti

Fagin er persóna í Oliver Twist Charles Dickens en einnig hljómsveit starfandi hér á landi 1987, Robert Louis Stevenson skrifaði söguna um Gulleyjuna og hér á landi störfuðu sveitirnar Gulleyjan og Ívar & gulleyjan. Skytturnar þrjár og Skytturnar eiga sér aftur samsvörun í Skyttunum þremur eftir Alexandre Dumas. Dúett Geira Sæm og Styrmis Sigurðssonar, Lassie kom fram í þætti Hemma Gunn árið 1994 en sá dúett varð líklega ekki langlífur fremur en hljómsveitin Ottó og nashyrningarnir sem á sér hliðstæðu í bókinni Ottó nashyrningur eftir hinn rómaða danska barnabókahöfund, Ole Lund Kirkegaard. Reyndar var starfandi hérlendis hljómsveitin Albert sem auðveldlega mætti tengja við samnefndan Albert, sem Kirkegaard skrifaði líka.

Pamela Lyndon Travers skrifaði bækurnar um Mary Poppins og sveit með því nafni innihélt Gunnar Bjarna Ragnarsson Jet Black Joe liða og Snorra Snorrason söngvara meðal annarra, önnur sveit Poppins flýgur starfaði á Selfossi og hafði að geyma Skítamórals-liða svo barnfóstran fljúgandi hefur víða komið við.

Dagfinnur dýralæknir var þekkt sögupersóna hér fyrrum, og voru gefnar út nokkrar bækur með honum en höfundur þeirra var Hugh Lofting, í samnefndri íslenskri rokksveit var m.a. að finna Franz Gunnarsson en sveitin keppti í Músíktilraunum 1991. Hér má einnig nefna sveitirnar Basil fursta og Nimbus en hið síðarnefnda er eins og svo margir vita tegund af galdrakústi úr Harry Potter bókunum eftir J.K. Rowling. Þótt undarlegt megi virðast finnast ekki fleiri Potter-tengingar í íslenskum hljómsveitanöfnum. Ekki enn að minnsta kosti.

Frönsk belgísk teiknimyndasöguáhrif
Tíbet tabú

Tíbet tabú

En svo eru það teiknimyndasögurnar og þar eru evrópsku sögurnar greinilega mun vinsælli en amerísku ofurhetjurnar, hvað hljómsveitanöfn varðar. Reyndar er evrópski hlutinn nær eingöngu bundinn við tvö lönd, Frakkland og Belgíu.

Og ef við byrjum á fransk belgíska skólanum í teiknimyndasögum, þá er hann óneitanlega fyrirferðarmikill á lista íslenskra hljómsveita, hér má fyrst nefna skírskotanir í Ástríks bækurnar eftir Rene Goscinny og Albert Uderzo (Asterix, Ástríkur í helvíti og Gaulverjar), Lukku Láki eftir Morris og Goscinny á sína fulltrúa en flestar þær sveitir voru jú í kántrígeiranum (Dalton, Daltónbræður, Lukkulákarnir og Ógn og skelfing (sú síðastnefnda er titill á Lukku Láka bók)).

André Franquin sem teiknaði bækurnar um Sval og Val auk Viggós viðutan er greinilega vinsæll meðal myndasöguþenkjandi tónlistarmanna (Z-glúbb, Zorglúbb, Vigga viðutan og Tíbet tabú) en tvær síðast töldu sveitirnar eru augljóslega útúrsnúningur, Tíbet tabú er skírskotun í Svals og Vals-bókina Tembó tabú og Tinna í Tíbet eftir Hergé (en það virðist vera eina sveitin sem hefur tengingu við Tinna bækurnar sívinsælu). Svo er rétt að nefna hljómsveitina Zefklop, sem einhverjum þætti sjálfsagt langsótt að nefna en þar er vísað í brandara í aukasögunni Aparnir hans Nóa í Svals og Vals bókinni Svaðilför til Sveppaborgar. Einnig mun hljómsveitin Þrumugosar vera vísun í hljómsveit sem Viggó viðutan og félagar hans starfrækja.

Síðastur fulltrúa fransk belgíska hluta teiknimyndasagnanna er Peyo en hljómsveitirnar Smurf, Strumparnir (frá Keflavík) og Æstistrumpur vísa til hans, margir muna eflaust einnig eftir Strump-safnspóluseríunni upp úr 1990 en það er önnur saga.

Aðrar teiknimyndasögur
Kórak

Kórak

Í lokin er rétt er að geta annarra myndasagnatenginga en hljómsveitirnar Plútó, Hexía og Ripp Rapp & Garfunkel eru allar runnar undan rifjum Disney. Tarzan, Kórak og Prins Valium eru sprottnar upp úr öðrum geira þessarar annars ágætu bókmenntagreinar, þær eru upphaflega af öðrum toga bókmennta en ungir íslenskir hljómsveitatöffarar hafa nær áreiðanlega sótt áhrif sín í teiknimyndaútgáfur þeirra. Að síðustu er hér nefnd Maus, eini fulltrúi bandarískra myndasagna en er reyndar mun tengdari Evrópu og Þýskalandi en Bandaríkjunum. Hljómsveitina Maus þekkja auðvitað allir.

Það er ljóst af þessu að íslenskir tónlistarmenn hafa í gegnum tíðina verið duglegir að sækja hljómsveitanöfn í bókmenntirnar, að sjálfsögðu er ekki um tæmandi lista að ræða og gætu eflaust margir bætt í flóruna en eftirtektarvert er að erlendu áhrifin eru mun meiri en þau íslensku og það á sérstaklega við um barnabókmenntirnar, engum hljómsveitatöffurum íslenskrar tónlistarsögu hefur þótt neitt sérlega töff að sækja nokkurn skapaðan hlut til íslenskra höfunda.