Nöfn íslenskra hljómsveita IV: – Horft til bókmenntanna (fyrri hluti)

Hér verður fjallað um nöfn hljómsveita á Íslandi, af nógu er að taka og því er rétt að skipta umfjölluninni í nokkrar minni greinar. Í þetta skiptið er rýnt í bókmenntir og hvernig þær hafa haft áhrif á íslenska tónlistarmenn við val á hljómsveitanöfn. Hér er um að ræða fyrri grein af tveimur um bókmenntir, hin síðari verður með áherslu á barnabókmenntir og teiknimyndasögur.

Áður hefur verið fjallað um trúarbrögð í þessu samhengi (sjá Nöfn íslenskra hljómsveita III: – frá forngoðum til frelsarans og allt þar á milli) og þar er óhjákvæmilega rýnt í trúarrit tengd þeim s.s. Völuspá og Biblíuna, þær bókmenntir verða því látnar liggja á milli hluta að þessu sinni en aðrar bókmenntir náskyldar norrænu goðafræðinni er hér fyrst til umfjöllunar – hinar fyrstu eiginlegu bókmenntir Íslendinga aðrar en þær sem tengjast goðafræðinni beint.

Íslendingasögurnar og Sturlunga saga
Sturlungar [1]

Sturlungar

Hér ber fyrst að nefna sveitir sem tengjast Íslendingasögunum, Egils saga Skallagrímssonar hefur verið mönnum hugleikin á köflum, bæði hafa verið til sveitir sem bera nöfnin Egla (Egils saga hefur oft verið kölluð Egla) og Höfuðlausn (ljóð eftir Egil). Ármóður skegg er þriðja sveitin úr ranni Egils sögu en sú persóna varð þeim vafasama heiðurs aðnjótandi að verða fyrir æluspýju útúrdrukkins Egils.

En Íslendingasögurnar hafa komið víðar við í þessu samhengi, í kringum 1970 var uppi sveit sem bar heitið Ég var ung gefin Njáli, og aldarfjórðungi síðar var Langbrók vinsæl á skemmtistöðum bæjarins, báðar þessar sveitir tengjast Njáls sögu.

Og fleiri Íslendingasögur koma við sögu hljómsveitanafna, sveitirnar Melkorka og Helena fagra eru báðar runnar undan rifjum Laxdæla sögu og pönkhljómsveitin Grettir ber augljósa skírskotun sem og Fóstbræður, en söngkvartett, karlakór og grínhópur hafa borið síðarnefnda heitið.

Náskyldar Íslendingasögunum er Sturlunga saga en sveit með því nafni starfaði fyrir 1970, og önnur rúmlega tíu árum síðar. Einnig kannast margir við hljómsveitarnafnið Kakali en Þórður kakali kom einmitt við sögu Sturlunga.

Þjóðsögur, ævintýri og riddarasögur
Grýlurnar3

Grýlurnar

Í ævintýrum, þjóðsögum og riddarasögum er hægt að finna fjölmörg dæmi um íslensk hljómsveitanöfn, Dvergarnir sjö störfuðu í kringum aldamótin, ekki er heldur langt síðan hljómsveitin Hvar er Mjallhvít? var og hét á Reykjavíkursvæðinu. Baunagrasið starfaði á tíunda áratugnum (með vísan í Jóa og baunagrasið), og um 1990 var hljómsveitin Þúsund og ein nótt starfandi í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Sé hins vegar litið til þjóðsagnahefðarinnar má nefna sveitir eins og Hrói höttur og munkarnir, Kolrassa krókríðandi, Bakkabræður, Myrká (samanber Djákninn á Myrká) og Kölski (fjölmargar þjóðsögur eru tengdar samskiptum Kölska og Sæmundi fróða), jólatengd þjóðsagnaminni tengd hljómsveitum eru til dæmis Grýlurnar sem nutu mikilla vinsælda fyrir nokkrum áratugum, Leppalúðarnir og Gilitrutt sem færri kannast við. Tilburi, Goblins, Nykur, Skoffín og Finngálkn eru svo hljómsveitir sem sótt hafa nöfn sín í annars konar þjóðsagnaminni íslensk sem erlend, allt eru þetta hugtök yfir lifandi fyrirbæri.

Riddarasagnaleg áhrif má sjá í hljómsveitanöfnum eins og Ísold og Tristan, en þau eru persónur úr riddarasögum, sem höfðu yfirleitt uppruna sinn að rekja til Frakklands. Rómeó og Júlía (sbr. hljómsveitin Rómeó og Júlíus) er aftur tengd Ítalíu.

Áhrif íslenskra skáldverka
Tilbury

Tilbury

Hér að framan hefur eingöngu verið litið til höfundalausra bókmennta en þá er komið að þeim geira bókmennta sem hafa skráð höfunda. Íslensk skáldverk eiga nokkra fulltrúa á þeim lista, frægust hljómsveita er þar án efa Sálin hans Jóns mín sem vísar í samnefnt ljóð Davíð Stefánssonar frá Fagraskógi en ljóðið er reyndar byggt á þjóðsögu. Davíð skrifaði einnig leikritið Gullna hliðið upp úr sömu þjóðsögu, sem varð þeim Sálarliðum einmitt efni í plötutitil.

Margir þekkja hljómsveitina 200.000 naglbíta en það nafn kemur úr hugarheimi Halldórs Laxness eins og Atómstöðin, hljómsveitin Rein tengist sögupersónunni Jóni Hreggviðssyni í Íslandsklukku Laxness en hann var einmitt frá Rein á Akranesi.

Aðrar tilvísanir í íslensk skáldverk eru til að mynda Ofvitarnir (sbr. Ofvitinn eftir Þórberg Þórðarson), Tilbury, sem er titill smásögu eftir Þórarin Eldjárn (byggt á þjóðsagnaminninu tilbera, sjá hér að ofan) og Nonni & Mannarnir, sem er afbökun á sögupersónum Jóns Sveinssonar, Nonna og Manna. Þess má reyndar geta að fyrrgreindur Nonni í hljómsveitinni var Jón Arnar Magnússon trommuleikari og þekktur tugþrautarkappi á sínum tíma.

Einnig má geta rithöfunda sem hafa orðið svo frægir að verða að hljómsveitanöfnum, Bóluhjálmar og Hagalín eru dæmi um slíkt.

Heimsbókmenntirnar

Áfram er haldið og nú eru það heimsbókmenntirnar, Jerzy Kosinski hefði sjálfsagt orðið glaður við að heyra að íslensk hljómsveit bæri nafnið Skræpótti fuglinn, sem er eitt hans frægasta verk, hvað þá Cervantes hefði hann vitað að hljómsveitin Kíkóti og vindmyllurnar hefði fengið nafn sitt af sögu hans um Don Quijote de la Mancha en hún hefur stundum verið nefnd fyrsta nútíma skáldsagan. Sultur eftir Knut Hamsun varð nokkrum tónlistarmönnum upp úr 1990 kveikja að nafni, sem og Frk. Júlía og Godot, sem báðar sækja nafn sitt í leikrit, annars vegar eftir August Strindberg – hins vegar Samuel Beckett. Franz Kafka skrifaði bókina Die Wervandlung eða Hamskiptin eins og hún hét í íslenskri þýðingu, margir þekkja einnig leikritið byggt á sögunni. Íslenska hljómsveitin Hamskiptin starfaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð fyrir aldamót og átti lag á safnplötu. Önnur menntaskólatengd bók var Of mice and men eftir John Steinbeck, en nafn sveitarinnar Of monsters and men má nær áreiðanlega rekja til þess. Tolstoj er nafn á sveit, og ein fárra sem skírð er beint eftir erlendum rithöfundi, hinum rússneska Leon Tolstoy. Dýragarðsbörnin þekkja fáir sem nafn á hljómsveit en fleiri muna eftir bókinni sem skráð var af Christiane F., en fræg kvikmynd var gerð eftir bókinni. Bækurnar um hetju Villta vestursins, Morgan Kane nutu mikilla vinsælda hérlendis fyrir margt löngu en þær voru skrifaðar af norska höfundinum Kjell Hallbing sem kallaði sig reyndar Louis Masterson, Morgan Kane er löngu gleymdur en hljómsveit með því nafni var starfandi nýlega. Þess má líka geta í framhjáhlaupi að Hallbjörn nokkur Hjartarson gaf út samnefnt lag á plötu fyrir löngu.

Hobbitinn og Hringadróttins saga

Þessari umfjöllun lýkur með upptalningu á nokkrum hljómsveitanöfnum sem íslenskt tónlistarfólk hefur sótt í smiðju Johns R.R. Tolkien, sem eins og allir vita, ritaði m.a. Hringadróttins sögu og Hobbitann. Ein sveit eða dúett öllu heldur heitir einfaldlega Hobbitarnir og er starfandi ennþá eftir því sem best er vitað í Sandgerði. Reykvísk sveit bar nafnið Boromir um síðustu aldamót en þekktasta sveitin úr þessum geira er án efa rokksveitin Drýsill sem gaf út eina plötu 1985 og hafði meðal annarra á að skipa söngvaranum Eiríki Haukssyni.

Í síðari hluta þessarar greinar verður áfram rætt um íslenskar hljómsveitir og bókmenntir, með áherslu á barnabækur og teiknimyndasögur.