Glamúrfyllt geimpopp

DJ flugvél og geimskip – Glamúr í geimnum
Eldflaug records [án útgáfunúmers] (2013)
2,5 stjarna
Dj flugvélar og geimskip - Glamúr í geimnum

Dj flugvél og geimskip – Glamúr í geimnum

Steinunn Harðardóttir er með sérstakari listamönnum og aukasjálf hennar, Dj flugvél og geimskip, styður það. Steinunn hefur myndlistabakgrunn sem að hluta til skýrir nálgun hennar á tónlist, sem er óhefðbundin í öllum skilningi. Önnur skýring á nálgun hennar kann að vera tónlistaruppeldi hennar en hún er dóttir Harðar Bragasonar organista sem kom vægast sagt víða við í tónlist á yngri árum, var m.a. í hljómsveitum eins og Bruna BB, Þvagi, Oxsmá og Hljómsveitar Ellu Magg sem síður en svo fóru troðnar slóðir á sínum tíma.

Sjálf var Steinunn í hljómsveitinni Skelki í bringu og fyrir fimm árum gaf hún út sína fyrstu plötu undir Dj flugvél og geimskips nefninu, Rokk og rólegheit sem hlaut þokkalegar viðtökur gagnrýnenda.

Dj flugvél og geimskip er ekki einungis flytjandi heldur fer hún alla leið í ímyndinni, allt útlit, myndböndin, hljóðheimurinn og jú tónlistin myndar eina heild sem erfitt er að skilgreina heldur verður maður bara að upplifa – og fyrst og fremst að gefa því séns og þolinmæði því að tónlistin reynir óneitanlega á þanþolin og þau eru heldur betur þanin til hins ýtrasta.

Ofangreint hafði ég í huga þegar ég hóf að hlusta á aðra plötu Steinunnar, Glamúr í geimnum sem kom reyndar út fyrir löngu síðan, og hafði ákveðið að hlusta á hana í skömmtum. Það dugði þó ekki til og þegar ég hafði rennt henni fjórum fimm sinum í gegn fékk ég nóg og tók mér hlé frá geimpoppinu, hvíldi mig í nokkra daga og viti menn – það varð allt miklu auðveldara.

Ef við byrjum á hljóðheiminum þá sker hann sig mjög frá flestu öðru í tónlist, grunnur Casiohljómurinn er þar rauður þráður, og jafnvel má heyra enn eldri sánd sem kenna mætti við Baldwin og Yamaha skemmtara, og Steinunn er ekkert feimin að nota alla fítusana sem í boði eru. Söngurinn er enn fremur reverb-aður í tætlur til að gera ýktu gervi-geimupplifunina sem mesta, tónlist Dj flugvél og geimskip mætti í stuttu máli skilgreina sem geimkrúttsskrýtipopp í draumkenndum Teletubbies heimi, nær kemst ég ekki.

Lögin sjálf eru kannski það sem dregur plötuna hvað mest niður, þau eru einfaldlega ekki nógu sterk á köflum, Hið frábæra lag Trommuþrællinn ber af á plötunni að mínu mati og brýtur hana upp í tvenns konar skilningi, laga- og hljóðheimslega. Það hefðu mátt vera eitt eða tvö slík lög í viðbót, önnur lög eru of lík og renna saman í eitt, þau falla engan veginn undir „venjulega“ skilgreiningu á lagasmíðum eins og við eigum að venjast í síbyljuútvarpsumhverfinu, enda verður þessi tónlist seint daglegur gestur þar þótt hún eigi auðvitað erindi þangað eins og öll önnur tónlist. Lögin hafa ekki þessa uppbyggingu sem við höfum vanist, með erindum, viðlögum, milliköflum, sólóum og endurteknum viðlögum, heldur veit maður aldrei hvert þau stefna og því er mjög erfitt að læra lögin eða syngja með. Framan af hafði ég á tilfinningunni að þau væru samin samhliða því sem þau voru tekin upp en síðan sannfærðist ég um að lögin væru útpæld og fyrirfram samin. Það er auðvitað ókostur fyrir þann sem er vanur að láta mata sig með fyrrgreindri „venjulegri“ tónlist, en kostur fyrir þá sem vilja láta ögra sér og ég tek ofan fyrir Dj flugvél og geimskip fyrir að fara út fyrir rammann vitandi það að eiga ekki möguleika í íslenska útvarpsumhverfinu.

Flutningurinn er jafn óhefðbundinn og annað á plötunni, Steinunn beitir rödd sinni á ýmsa vegu og einhverjir kynnu að nefna bæði Björk og Leoncie sem söngáhrifavalda, sjálf hefur hún nefnt Sigríði Níelsdóttur (í hljóðheimslegum skilningi), sem ég er nokkuð sammála um. Sérhver nóta eða trommuslag er ekki endilega alltaf á réttum stað eða tíma en það gerir tónlistina mannlegri. Og þess má geta að hún notar ekki eingöngu rafmagnshljóðfæri heldur má einnig heyra í tambúrínu og annars konar hristum.

Dj flugvél og geimskip kemur víða við í efnistökum sínum og er fjarri því að vera hefðbundin í því sem öðru, fyrrnefndur Trommuþræll fjallar t.a.m. um trommara í ævintýralandi þar sem honum er þrælað út og fær ekki að borða, fyrsta lag plötunnar (Ráðabrugg villikattanna) fjallar um ketti í bakgarðinum og Á krossgötum deilir hún á neyslusamfélagið ekki ósvipað og Apaspil Nýdanskrar sem margir muna, framsetningin er þó auðvitað öll önnur.

Það þarf varla að taka fram að umslag Glamúrs í geimnum er frábært og algjörlega samofið tónlistinni hvað útlit varðar, eitt af umslögum ársins.

Ég var fyrirfram viss um að annað hvort gæfi ég plötunni fullt hús eða enga stjörnu, hún er vissulega forvitnileg en hún er langt frá því gallalaus og því finnst mér við hæfi að gefa tvær og hálfa stjörnu út í geiminn.