Bjössi Thor á Múlanum

Björn Thoroddsen

Björn Thoroddsen

Næstu tónleikar Jazzklúbbsins Múlans fara fram ÞRIÐJUDAGINN 4. nóvember með gítarleikaranum Birni Thoroddsen. Á tónleikunum sýnir Björn á sér nýjar hliðar en hann kemur fram aleinn og óstuddur án aðstoðarmanna. Tónleikarnir byggjast uppá einum gítar, einum flytjanda, mörgum tónlistarstefnum en þó aðallega breidd gítarsins. Tónleikagestir geta átt von á að heyra verk eftir Duke Ellington, Joe Zawinul, Rolling Stones, Richard Rodgers, Beatles  og jafnvel eitthvað eftir gítarleikarann sjálfan.

Björn Thoroddsen gítarleikara þarf vart að kynna, hann hefur sl. 30 ár verið einn af atkvæðamestu jazztónlistarmönnum Íslands og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum m.a.  „Jazztónlistarmaður ársins“, „Bæjarlistamaður Garðabæjar“, Gullmerki FÍH of.l.. Björn hefur ásamt því að vera í forsvari fyrir Guitar Islancio leikið með fjölda þekktra erlendra tónlistarmanna.Á síðustu misserum hefur Björn verið að koma sér inn í alþjóðlegu gítarhringiðuna með því að leika með listamönnum á borð við  Tommy Emmanuel,  Kazumi Watanabe, Tim Butler ásamt því að stjórna gítarhátíðum í Bandaríkjunum, Kanada og Noregi.

Vetrardagskrá Jazzklúbbsins Múlans er spennandi og heldur áfram og verða 11 tónleikar í röðinni sem fara fram flest miðvikudagskvöld fram í byrjun desember. Múlinn er á sínu átjánda starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu. Flestir tónleikar Jazzklúbbsins Múlans fara fram á Björtuloftum eða í Kaldalónssal Hörpu.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum Hörpu og er miðaverð kr. 1500, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og midi.is