Ýlir – tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk auglýsir eftir umsóknum

Ýlir tónlistarsjóðurÝlir – tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk hefur hafið umsóknarferli sitt fyrir tónleika og verkefni sem fyrirhuguð eru á árinu 2015. Umsóknarfrestur er til 15. janúar.

Umsóknarferlið er opið fyrir tónlistarmenn, hljómsveitir, hópa og félagasamtök. Stjórn sjóðsins vill hvetja tónlistarmenn sem og aðra sem hyggja á tónleikahald og skipulagningu tónlistarverkefna í Hörpu, úr öllum geirum tónlistar, til að kynna sér umsóknarferlið og þá möguleika sem stuðningur sjóðsins getur boðið upp á.

Ýlir – tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk hefur það að markmiði að styðja efnilegt tónlistarfólk og veita því tækifæri til að koma fram í húsinu. Sjóðurinn einsetur sér að styðja við verkefni af ólíkum toga og vill þannig ýta undir fjölbreytt tónlistarlíf í Hörpu. Meðal þeirra þátta sem stjórn sjóðsins lítur til við afgreiðslu umsókna er hvernig verkefnið nýti möguleika Hörpu sem tónlistarhús, möguleikar þess til að höfða til nýrra áheyrendahópa og hvernig það nýtist ungu og efnilegu tónlistarfólki.

Á þessu ári hefur Ýlir stutt við fjölbreytt verkefni, margskonar tónleika og tónlistarhátíðir í Hörpu. Má þar nefna Músíktilraunir sem í rúmlega þrjá áratugi hefur verið vettvangur fyrir ungar og efnilegar hljómsveitir og listamenn til að koma sér á framfæri, Nótuna uppskeruhátíð tónlistarskóla í landinu, tónleikaseríuna Eflum ungar raddir, Podium Festival tónlistarhátíð og Alþjóðlegu tónlistarakademíuna sem haldin var í annað sinn í ár. Framundan eru tónleikar með Cell 7 sem og útgáfutónleikar hljómsveitarinnar Ylju í lok þessa mánaðar, þann 28. nóvember, í Hörpu með stuðningi Ýlis.

Frekari upplýsingar um umsóknarferlið og umsóknareyðublað má finna á vefsíðu sjóðsins; www.ylir.is. Umsóknarfrestur er til 15. janúar.

Tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk, sem síðar fékk nafnið Ýlir – tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk, var stofnaður í lok árs 2010 þegar Menningarsjóði SPRON var slitið með úthlutun til ýmissa mennta-, menningar- og góðgerðarmála. Alls var 80 milljónum króna varið til stofnunar þessa tónlistarsjóðs sem ætlaður er til þess að veita ungu og efnilegu tónlistarfólki tækifæri á að koma fram í okkar nýja tónlistarhúsi, Hörpunni um ókomin ár.