Músíktilraunir 2021

Músíktilraunir eru á næsta leiti en keppnin hefur verið haldin síðan 1982 – þó með tveimur undantekningum, annars vegar árið 1984 þegar kennaraverkfall kom í veg fyrir keppnina og svo hins vegar í fyrra þegar Covid-faraldurinn skall á af fullum þunga.

Keppnin hefur verið kjörinn stökkpallur ungs og efnilegs tónlistarfólks og meðal þeirra hljómsveita sem sigrað hafa Músíktilraunir má nefna Maus, Kolrössu krókríðandi, XXX Rottweiler, Greifana, Dúkkulísurnar, Mammút, Botnleðju og Vök, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hér má sjá sögu tilraunanna frá upphafi til ársins 2000.

Keppnin fer að þessu sinni fram í Norðurljósasal tónlistarhússins Hörpu frá 22. til 29. maí nk. og þar fær ungt fólk á aldrinum 13 til 25 ára tækifæri til að leika listir sínar við bestu mögulegu aðstæður fyrir framan sal áhorfenda. Fyrst fara fram undanúrslit 22.-25. maí en úrslitin fara svo fram þann 29.

Skráning er nú í fullum gangi en hún hófst 9. apríl og stendur til mánudagsins 26. apríl nk. svo nú fer hver að verða síðastur til að skrá sig. Skráning fer fram í gegnum heimasíðu keppninnar musiktilraunir.is.