Nöfn íslenskra hljómsveita I: – Fábreytni framan af

Hljómsveit Poul Bernburg eldri

Hljómsveit Poul Bernburg eldri

Hér verður fjallað um nöfn hljómsveita á Íslandi, af nógu er að taka og því er rétt að skipta umfjölluninni í nokkrar minni greinar. Þessi fyrsta grein fjallar um upphafið.

Flestum er kunnugt um hugmyndaauðgi tónlistarmanna þegar
kemur að því að velja nafn á hljómsveitir. Sumum reynist auðvelt að finna upp á hnitmiðuðu nafni á meðan aðrir eiga í mestu vandræðum með það, þess eru fjölmörg dæmi um að slitnað hafi upp úr samstarfi þar sem ekki náðist sátt um nafn á hljómsveitina.

Hljómsveitanöfn hafa löngum fylgt stefnum og straumum og tískubylgjur eru þar ríkjandi eins og á öðrum sviðum. Það er þó með þau eins og annað í heimi menningar, að núorðið virðist allt vera leyfilegt – ekki aðeins að póstmódernískar hugmyndir um frelsi fljóti þar um eins og annars staðar heldur hafa einnig mörk þess um hvað sé leyfilegt og óleyfilegt í siðsamlegu samhengi einnig færst. Það má því segja að ekkert geti komið lengur á óvart í hljómsveitanöfnum.

Fyrstu hljómsveitirnar
Hljómsveit Akureyrar

Hljómsveit Akureyrar

Þegar fyrstu hljómsveitirnar í Íslandssögunni voru að koma fram á sjónarsviðið tíðkaðist ekki að nefna þær, fjölmargar hljómsveitir léku til að mynda undir dansi á veitingastöðum borgarinnar framan af án þess að bera nokkur nöfn, fyrsta dæmið um hljómsveitarnafn var líkast til Hljómsveit Akureyrar sem stofnuð var 1916 (önnur sveit með sama nafn starfaði á fjórða áratugnum) en Hljómsveit Reykjavíkur (stofnuð 1921 í tilefni af konungskomu) kom í kjölfarið, það nafn var þó ekki fastara í sessi en svo að hún var einnig kölluð Reykjavíkur band svo ekki hefur nafngiftin verið formlega niðurnegld.

Hljómsveit starfaði í nýstofnuðu Ríkisútvarpinu 1930 og lék inn á plötu sem kom út síðar það ár, hún var nefnd Hljómsveit Þórarins Guðmundssonar eftir stjórnanda hennar en líklega hafði hún ekki borið neitt nafn fyrr en platan kom til sögunnar. Það ár komu upptökumenn frá Columbia á vegum Fálkans til landsins til að taka upp plötur í tilefni alþingishátíðarinnar á Þingvöllum og gæti það hafa ýtt undir að hljómsveitir bæru nafn, að minnsta kosti þurfti að nefna flytjendur á plötumiðum. Við þetta tækifæri lék til dæmis Hljómsveit Reykjavíkur inn á plötu og þremur árum síðar einnig Hljómsveit Poul Bernburg (stofnuð 1922 og var lengi án nafns) sem á plötumiða er kölluð P.O. Bernburg og orkester.

Hefðir verða til

Um það leyti er orðið nokkuð algengt að nefna sveitir, oftast við hljómsveitarstjóra – Hljómsveit Karls Runólfssonar (1928), Hljómsveit Aage Lorange (1931), Hljómsveit Árna Björnssonar (1936), Hljómsveit Elo Magnússon (1936) og Hljómsveit Carls Billich (fyrir 1940) svo dæmi séu tekin. Um og eftir síðari heimsstyrjöldina virðist það hafa verið orðið algilt að hljómsveitir bæru nafn, en þá jókst úrval afþreyingar í kjölfar veru hernámsliðs Breta og síðar Bandaríkjamanna hérlendis.

Eitthvað var um að sveitir væru kenndar við félagasamtök eða staði sem þær léku á s.s. Hljómsveit Hótel Borg (1933) sem einnig var nefnd Hljómsveit Jack Quinet, Hljómsveit FÍH (1933), Hljómsveit IOGT (góðtemplarar), Hljómsveit K.R. hússins og Hljómsveit S.G.T.N.B. (sem reyndar væri fróðlegt að vita fyrir hvað stendur).

Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar

Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar

Þegar þessi hefð var komin á má segja að óbreytt ástand hafi varað næstu áratugina, einu breytingarnar urðu þær að í daglegu tali voru nöfn hljómsveitastjóranna gjarnan notuð í gælunafnastíl eða með skammstöfunum eins og Hljómsveit Bjarna Bö, Hljómsveit Ragga Bjarna, Hljómsveit Óla Ben o.s.frv. Ýmis tilbrigði urðu þó til við þetta stef og markaðist yfirleitt af stærð sveitanna, þannig urðu til seint á fimmta áratugnum sextettar, kvintettar, kvartettar og tríó en þó ávallt kennd við hljómsveitastjóra, þar má nefna sem dæmi langfrægastan KK sextett, Sextett Ólafs Gauks, Ó.M. kvartett, B.G. kvintett, Sextett Berta Möller og þannig mætti lengi áfram telja.

Í allri þessari nafnaflóru voru karlmenn hljómsveitastjórar og sveitirnar því kenndar við þá, breytti þá engu hvort kvensöngvarar væru í aðalhlutverki, söngvarar voru framan af ekki hluti af sveitinni heldur ráðnir til skemmri eða lengri tíma af hljómsveitarstjóranum. Það var ekki fyrr en 1960 að hljómsveit var kennd við kvenmann, það var Hljómsveit Sigrúnar Jónsdóttur.

Þessi hefð með nöfnin lét smám saman undan öðrum hefðum og þrátt fyrir að enn í dag séu til sveitir sem kenndar eru við hljómsveitastjóra, tíðkast það aðallega við harmonikku- og djassgeirann. Þá eru sveitir gjarnan settar saman fyrir einstöku gigg eða jafnvel plötuupptökur og þær þá nefndar eftir aðalmanninum, Harmonikkuhljómsveit Guðmundar Samúelssonar, Tríó Agnars Más Magnússonar, Tríó Óla Stolz, Kvartett Tómasar R. Einarssonar, Djasskvintett Stefáns S. Stefánssonar og svo framvegis. Ekki má heldur gleyma því þegar hljómsveitir grípa til grínnefna, Kvartett Ó. Jónsson og Grjóni, Tríó Jóns Leifssonar, Djassband Geira Smart og Hljómsveit Ellu Magg eru angi af þeirri grein.

Rokkið kemur til sögunnar

Þegar rokkið kom til sögunnar á síðari hluta sjötta áratugarins fór að draga til tíðinda þegar nöfn hljómsveitastjóra urðu ekki lengur allsráðandi í nafnavali, hljómsveitir sem báru almenn og hlutlaus nöfn komu til sögunnar þó án þess að missa viðskeytið -kvartett, -sextett eða annað sem þótti ómissandi „nánari skýring“ á stærð sveitanna.

Lúdó og Stefán

Lúdó sextett

Ekki liggur fyrir hver var fyrst sveita að bera nafn sem ekki hafði vísan í hljómsveitarstjóra eða annað tengt. Lúdó sextett, Alto kvintett, City sextett, Atlantic kvartett, Diskó sextett, Dúmbó sextett og fleiri slík urðu vinsæl. Slík viðskeyti gátu þó verið mismunandi hjá sömu sveitinni, þ.e. Alto kvintett eða Alto sextett – fór eftir því hversu stór sveitin var í það og það skiptið.

Þrátt fyrir fábreytilegt hugmyndaflug í tengslum við nöfn hljómsveita voru samt sem áður undantekningar frá reglunni, í Keflavík starfaði til dæmis Bláa bandið á stríðsárunum, stuttu síðar var hljómsveitin Bluebirds og enn síðar Fjórir fjörugir og Fjórir jafnfljótir sem þó í raun jafngildir kvartett viðskeytinu.

Og þannig var það í raun þar til „bítlið“ kom til sögunnar, en það er efni næstu greinar.

Ein athugasemd við “Nöfn íslenskra hljómsveita I: – Fábreytni framan af

  1. Bakvísun: Nöfn íslenskra hljómsveita II: – Unglingamenningin tekur völdin | Glatkistan

Ummæli eru ekki leyfð.