Nöfn íslenskra hljómsveita III – Frá forngoðum til frelsarans og allt þar á milli

Hér verður fjallað um nöfn hljómsveita á Íslandi, af nógu er að taka og því er rétt að skipta umfjölluninni í nokkrar minni greinar. Að þessu sinni eru það trúarbragðatengd hljómsveitanöfn sem eru til umfjöllunar, þar ber langhæst kristni og norræna goðafræði. 

Hægt er að tala um vakningar eða tískubylgjur þegar kemur að því að greina og skoða hljómsveitanöfn sem tengjast trúarbrögðum. Framan af, einkum á áttunda áratug síðustu aldar (og fram á þann níunda), sóttu tónlistarmenn í kristin áhrif, e.t.v. má rekja það að einhverju leyti til söngleikja (og kvikmynda) sem nutu þá vinsælda – eins og Jesus Christ Superstar, allavega þá voru hljómsveitanöfn sem höfðu skírskotun í kristni mun meira áberandi en þær sem tengdust öðrum trúarbrögðum. Það var ekki fyrr en á níunda áratugnum og einkum þeim tíunda sem norræna goðafræðin tók við hvað nafnavinsældir varðar.

Þegar kristni varð vinsæl
Júdas 1969

Júdas (1969) var með fyrstu íslensku sveitunum með trúarlega tengingu í nafni sínu.

Kristin trú hefur verið mörgum hugleikin þegar velja þarf nafn á hljómsveit, það getur verið með einum eða öðrum hætti en yfirleitt er þó sótt í Biblíuna sjálfa, sérnöfn – oftast persónur eða örnefni, jafnvel hátíðir. Þannig eru nöfn eins og Adam, Júdas, Lucifer (þrjár sveitir), Lúsífer, Golíat, Betlehem, Jónas, Gabríel, Melchior, Páskar, Páskar frá Akureyri, Helvíti, Sódóma, Djosúa, Postularnir, Jeremías, Babýlon, Pontiak Pilatus, Pedro Pilatus, Heródes, Paradís, Para-dís, Eden, Mezzias og Messías þekkt sem íslensk hljómsveitarnöfn og ekki má gleyma Kristi sjálfum sbr. Ézú, Texas Jesús og Jesús og postularnir. Einnig má finna dæmi þar sem persónur Biblíunnar koma fyrir í einhvers konar óbeinu samhengi, Satan er vinsælastur í því sambandi; Afsprengi Satans, Guði gleymdir, Nói trillusmiður, Magnús í hvalnum, Guð sá til þín vonda barn (GSTÞVB), Dætur Satans og Synir Satans eru allt dæmi um þess konar hljómsveitir. Sem annars konar Biblíutengingar má nefna hljómsveitirnar Synir Sódómu, Ástríkur í helvíti, Flames of hell, Mannakorn, INRI, Djöflarnir, Dýrlingarnir, Farísearnir og Forgarður helvítis.

Norræna goðafræðin sækir á

Þeir sem unna þungu rokki hafa löngum sótt í arf norrænnar goðafræði, einkum Völuspá og Snorra Eddu. Fæstar (með fáeinum undantekningum þó) hafa þær sveitir þó notið almennrar hylli heldur fremur notið aðdáunar fárra en tryggra enda tilheyra þær iðulega jaðartónlist. Þannig má finna hljómsveitanöfn tengd ragnarökum eins og Ginnungagap, Hel, Múspell, Níðhöggur, Ragnarök, Svört verða sólskin og Vígspá, sem koma allar úr þeim þunga metalgeira sem um ræðir. Og í dag þekkja allir Skálmöld sem hefur sérhæft sig í norrænu goðafræðinni, reyndar eins og hljómsveitin Sólstafir sem einnig er í þyngri kantinum.

Thorshammer[1]

Thorshammer – meikdraumur Hljóma erlendis var beintengdur menningararfinum

Annars konar nafnatengingar er einnig að finna við goðafræðina, stundum er skírskotað til persóna (eða goða) og þjóða eins og Æsir (þrjár sveitir), Ásar, Ásatríóið, Bölverkur, Randver, Loki, Yggdrasill (tvær sveitir), Embla, Þrymur, Völva og Sygin, sér á báti er karlakóranafnið Ægir.

Landslag og örnefni goðafræðinnar eru ekki síður vinsæl til nafna, s.s. Askur Yggdrasils (tvær sveitir), Ámsvartnir og Gjöll, og meðal sveita með annars konar skírskotanir í goðafræðina má nefna Völuspá, Thors hammer, Thorshamrar, Þrumuvagninn, Mímisbandið og Andhrímnir svo dæmi séu tekin. Eins og flestir vita gekk hljómsveitin Thors hammer venjulega undir nafninu Hljómar en poppaði upp með þetta goðfræðilega nafn þegar draumar um meik á erlendri grundu stóðu sem hæst. Þess má svo geta að þeir Thors hammer liðar tóku aftur upp gamla Hljómanafnið.

Vísanir í goðafræðina eru ekki eingöngu bundnar við nöfn hljómsveita heldur einnig plötu- og lagatitla eins og bæði Skálmöld og Sólstafir sem fyrr eru nefndar, bera vitni um. Svo má nefna að ógrynni félagsheimila í kringum landið sem hafa hýst margar hljómsveitirnar bera nöfn úr fræðunum s.s. Hnitbjörg, Bifröst, Valaskjálf o.s.frv. En það er efni í aðrar greinar.

Grísk og rómversk goðafræði
Möðruvallamunkarnir

Möðruvallamunkarnir er ágætt dæmi um hljómsveit með óbeina tengingu við trúarbrögð.

Grísk og rómversk goðafræði kemur fast í humátt á eftir norrænu goðafræðinni og kristni þegar kemur að tengslum við trúarbrögð, sem er einkennilegt í ljósi þess að hún stendur okkur víðsfjarri í flestum skilningi – nema e.t.v. bókmenntalegum en lesendur hafa væntanlega löngu áttað sig á þeim óljósum mörkum er oft eru á milli bókmennta og trúarbragða. M.ö.o. hafa margir þættir trúarbragða varðveist í gegnum bókmenntir (annarra en trúarrita) í gegnum tíðina. Það hefði e.t.v. að sumu leyti verið eðlilegt að ræða um ofangreint efni undir liðnum Bókmenntir en sá liður hefði þá orðið stærri en svo að fjallað yrði um hann í stuttri grein sem þessari.

En allavega, grísk/rómversk goðafræði á sér greinilega fjölmarga fylgismenn þegar kemur að vali á hljómsveitanöfnum. Fæstar þeirra hljómsveita urðu þekktar á landsvísu en þó má nefna Íkarus, sem var afsprengi þeirra Tolla Morthens og Megasar (sem auðvitað ber að nefna hér sem tengingu við gríska goðafræði þó ekki teljist hann til hljómsveita), nokkrar sveitir hafa borið heitið Bakkus/Bakkhus/Bacchus en lang flestar þeirra bera sérnöfn guða. Fleiri dæmi eru Afródíta, Ósíris, Amor, Apollo, Aþena, Hermes, Midas/Mídas, Pandóra, Orfeus og Spartakus (tvær sveitir), Pegasus og Phönix koma hins vegar úr hópi dýra í goðafræði Grikkja. Grísk/rómverska vakningin hefur heldur hjaðnað hin síðustu ár og náði líklega hámarki sínu á níunda áratug síðustu aldar.

Önnur trúarbrögð

Önnur trúarbrögð koma lítt við sögu íslenskra hljómsveita, sveitirnar Síva (úr hindúatrú) og Buddah með skilyrðum (tengt búddatrú) eru þau nöfn sem koma upp en þau eru án efa miklu fleiri, ótaldar eru fjölmargar hljómsveitir sem hafa óbeinar skírskotanir í trúarbrögð, mest kristni. Er hér einungis nefndar nokkrar, Einhverfir talibanar, Safnaðarfundur eftir messu, Munkar, Munkar í meirihluta, Nunnurnar og Möðruvallamunkarnir.

Þegar á heildina er litið sést að vísanir í trúarbrögð eru fjölmargar en það þykir ekki líklegt til vinsælda að skíra hljómsveitir slíkum nöfnum, alltént hafa sárafáar þeirra notið mikilla hylli almennings þótt litlir áhugahópar um vissa tónlist þekki þær.