Celsius (1976-77)

Celsius1

Celsius

Diskópoppsveitin Celsius var töluvert áberandi það ár sem hún starfaði, 1976-77.

Sveitin var stofnuð snemma vors 1976 af þeim Kristjáni Þ. Guðmundssyni hljómborðsleikara, Birgi Hrafnssyni gítarleikara, Sigurði Karlssyni trommuleikara og Pálma Gunnarssyni bassaleikara og söngvara en þeir voru allir þekktir tónlistarmenn og framarlega í íslensku tónlistarlífi.

Fljótlega bættist Birgir Guðmundsson gítarleikari í hópinn og um sumarið lék einnig með þeim breski gítarleikarinn Duncan Gillies en sveitin varð strax áberandi fyrir líflega spilamennsku og varð vinsæl á böllunum það sumarið.

Strax síðla sumar varð sveitin þó fyrir áfalli þegar Sigurður trommuleikari brotnaði á báðum úlnliðum eftir átök að loknum dansleik á Bolungarvík. Ólafur Garðarsson leysti Sigurð af áður en sveitin fór af þessum ástæðum í pásu um haustið.

Sú pása varði þó ekki lengi því um miðjan nóvember var hún aftur komin á stjá og þá höfðu bæst í hópinn söngvararnir Jóhann Helgason og Helga Möller, sem síðar áttu eftir að gera garðinn frægan sem dúóið Þú og ég. Þá höfðu sveitarmeðlimir prófað nokkra söngvara, þar á meðal unga söngkonu, Elleni Kristjánsdóttur, en þau Jóhann og Helga hlutu náð fyrir augum Celsius-liða og þar með var sveitin orðin vel raddsett hvað söng og raddir varðaði en meðlimir voru nú orðnir sjö talsins.

Í poppuppgjöri ársins hjá Dagblaðinu eftir áramótin 1976-77 var sveitin framarlega, hún var t.a.m. kjörin efnilegasta sveitin, Pálmi Gunnarsson besti bassaleikarinn og auk þess voru þeir sveitarmeðlimir framarlega í flestum flokkum uppgjörsins.

Þessi fjölmenna hljómsveit kom víða við í spilamennsku sinni og eftir áramótin æfði hún nokkur lög með Verzlunarskólakórnum sem flutt voru á skemmtun um vorið en Helga söngkona var um það leyti einmitt að útskrifast frá skólanum. Einnig var sveitin dugleg að koma fram á tónleikum og böllum.

Celsius varð ekki langlíf en síðla veturs var fyrirsjáanlegt að sveitin myndi liðast í sundur þar sem ýmis konar verkefni biðu sveitarmeðlima, sveitin skiptist nokkuð í tvennt hvað það varðaði en á meðan sumir vildu helga sig þessum öðrum verkefnum voru aðrir sem vildu einbeita sér að sveitinni og engu öðru. Það varð því ekki hjá því komist að leysa sveitina upp og um vorið mynduðu þeir Sigurður, Pálmi, Jóhann og Kristján nýja sveit ásamt tveimur Paradísar-liðum, sem hlaut heitið Póker. Þau hin voru þó síður en svo hætt í tónlist.

Ekki hætti sveitin þó án þess að skilja eftir sig minnisvarða því á ferli sínum náði hún að taka um a.m.k. fimm lög enda stóð alltaf til að gefa út plötu, sú plata kom aldrei út en lag frá þessum upptökum (Love your mother, sem reyndar var upphaflega úr smiðju Change sem Jóhann söngvari var í) var gefið nokkrum árum síðar út á safnplötunni Flugur (1981). Einnig komu út tvö lög frá þessum upptökum, Days pass me by og Poker, á safnplötunni Íslensk poppsaga: úrval af því besta 1972-77 árið 1996.

Árið 2013 birtist platan sem aldrei kom út, flestum að óvörum, og bar hún nafn sveitarinnar.

Efni á plötum