Afmælisbörn 4. janúar 2015

Gunnar Þórðarson

Gunnar Þórðarson

Þrír tónlistarmenn eiga afmæli í dag og eru eftirfarandi:

Gunnar Þórðarson gítarleikari og lagahöfundur á hvorki meira né minna en sjötugs afmæli á þessum degi. Gunnar þarf varla að kynna, hann fæddist á Hólmavík, fluttist ungur til Keflavíkur, varð fyrst landsfrægur sem gítarleikari og aðal lagahöfundur bítlasveitarinnar Hljóma en síðar komu aðrar sveitir eins og Thor‘s hammer, Lónlí blú bojs og Lummurnar. Frá því um miðjan áttunda áratug síðustu aldar hefur hann gefið út nokkrar sólóplötur en einnig unnið með öðrum listamönnum t.d. að vísnaplötunum margfrægu og Reykjavíkur plötunum. Allt of langt mál yrði að telja upp öll tónlistarafrek Gunnars en eftir hann liggur ógrynni af tónlist í formi popplaga, kvikmyndatónlistar, óperu, sálumessu og leikhústónlistar, auk þess sem út hafa komið nótnabækur og ævisaga hans svo fáein dæmi séu nefnd.

Steingrímur Guðmundsson trommuleikari á einnig afmæli í dag en hann er 57 ára, hann hefur leikið með ýmsum listamönnum bæði á sviði og á plötum en hann hefur lengst um verið trommuleikari sveita eins og Milljónamæringunum, Súld, Varsjárbandalaginu, Steintryggi o.fl.

Ólöf (Helga) Arnalds tónlistarkona er þriðja afmælisbarn dagsins, hún er fædd 1980 og er því 35 ára gömul. Ólöf starfaði með ýmsum hljómsveitum á yngri árum eins og Múm, Stórsveit Nix Noltes og fleirum, auk þess að vinna með Skúla Sverrissyni áður en hún hóf sólóferil en hún hefur gefið út fjórar breiðskífur, þá síðustu á síðasta ári.