Sóló [1] (1961-80 / 2017-)

Sóló sextett

Hljómsveitin Sóló var ein allra vinsælasta bítlasveitin sem spratt fram á sjónarsviðið fyrir og um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar og telst meðal stærstu nafnanna þegar kemur að uppgjöri við það tímabil, Sóló gaf aldrei út plötu á sínum tíma en hver veit hvað hefði gerst hefðu þeir fengið tækifæri til þess því sveitin hafði frumsamið efni í fórum sínum, lítill hluti þess efnis kom aftur á móti út á plötu sem hún sendi frá sér ríflega hálfri öld síðar.

Sóló hafði orðið til nokkrum árum áður en The Beatles komu til sögunnar, sveitin var líklega stofnuð síðla árs 1961 þótt flestar heimildir segja hana stofnaða 1962, og var í flokki þeirra sem léku blandaða tónlist að hætti íslenskra ungmennasveita með blöndu frumrokks, twists, limbós og gítarrokks í anda The Shadows og svo gátu þeir brugðið sér í gömlu dansana fyrir þá eldri.

Upphaflegir meðlimir sveitarinnar sem framan af gekk undir nafninu Sóló sextett voru Ólafur Már Ásgeirsson píanóleikari, Þorkell Snævar Árnason gítarleikari, Lárus Hjaltested Ólafsson bassaleikari, Júlíus Sigurðsson saxófón- og harmonikkuleikari og Guðmar Marelsson trommuleikari en auk þess var söngvarinn Rúnar Guðjónsson í sveitinni – því gekk hún stundum einnig undir nafninu Sóló og Rúnar. Einnig voru þeir Hilmar Arnar Hilmarsson gítarleikari og Þorleifur Gíslason saxófónleikari eitthvað viðloðandi sveitina á upphafsárum hennar. Liðsmenn Sóló höfðu áður leikið með sveitum eins og Ó.M. kvartettnum, Junior kvintett og J.J. Quintet og voru því ekki alveg nýgræðingar í faginu.

Sóló á forsíðu Fálkans 1964

Sóló kom líklega ekki fram opinberlega fyrr en á miðnæturtónleikum í Austurbæjarbíói haustið 1962 ásamt fleiri sveitum en í kvölfarið spilaði hún töluvert mikið á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins og á Suðurlandi en einnig nokkuð á klúbbum bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Sumarið 1963 fór Sóló í þriggja vikna ferð um vestan- og norðanvert landið og spilaði víða en hafði lengstu viðdvölina á Siglufirði þar sem þúsundir manna og kvenna notuðu tækifærið til að skemmta sér en þá var landlega og bræla í heila viku, þar lék sveitin á hverju kvöldi fyrst í Sjálfstæðishúsinu og svo á Hótel Höfn.

Árið 1964 breyttist tónlistarumhverfið töluvert með Bítlunum og Sóló var ein þeirra sveita sem tók bítlalög upp á sína arma og varð í kjölfarið meðal vinsælustu hljómsveita í þeim geira hérlendis enda með lög með sveitum eins og Beatles, Hollies og Searchers, fyrst um sinn ásamt sveitum eins og Tónum og Hljómum. Töluverðar mannabreytingar urðu á sveitinni þetta ár og í raun má segja að ný hljómsveit hafi orðið til. Rúnar söngvari hætti og aðrir meðlimir sveitarinnar skiptu milli sín söngnum nema Ólafur Benediktsson trommuleikari sem hafði þá tekið við af Guðmari en einnig áttu trommararnir Benedikt Pálsson og Reynir Harðarson þá eftir að leika með sveitinni þegar Ólafur fór í Lúdó og Stefán. Ólafur Már píanóleikari fór utan til náms og Sturla Már Jónsson gítarleikari kom inn í hana þannig að hún var nú skipuð þremur slíkum um tíma, Sturlu, Þorkeli og Hilmari og gat nú jafnt tekist á við Shadows og Bítlana en Hilmar gekk síðan til liðs við hljómsveit Hauks Morthens. Ólafur Már kom aftur inn síðar á árinu með nýjustu straumana í poppinu frá Bretlandi og hafði þá í farteskinu rafmagnsorgel – líklega hið fyrsta sem notað var hérlendis í slíkri hljómsveit.

Sóló og Searchers

Velgengni Sóló sést einna helst í því að þetta ár lék sveitin m.a. á stórum bítlatónleikum um vorið og um sumarið ákváðu þeir félagar að freista gæfunnar og héldu í þriggja vikna ferð til Noregs þar sem sveitin var líklega ein allra fyrst íslenskra sveita til að leika á erlendum vettvangi, m.a. komu þeir fram víða um land þar sem þeir léku m.a. fyrir 1100 manns og svo 1500 manns. Um verslunarmannahelgina lék sveitin svo fyrir á fjórða þúsund manns í Þórsmörk en það var í fyrsta sinn sem útihátíð með hljómsveit var haldin þar. Annars lék sveitin mikið í Breiðfirðingabúð og í Silfurtunglinu en einnig nokkuð á Keflavíkurflugvelli og víðar á dansleikjum í nágrenni höfuðborgararinnar s.s. Hlégarði, og um haustið lék sveitin aftur á bítlatónleikum í Austurbæjarbíói og svo í Lídó ásamt dönsku sveitinni Telstar – þar léku fleiri íslenskar bítlasveitir og kosið var um vinsælustu sveitina en sá titill féll í skaut Sóló. Á þessum tíma annaðist Pétur Guðjónsson rakari umboðsmennsku fyrir sveitina og hafði nóg að gera í þeim efnum.

Árið 1965 hélt fjörið áfram og sveitin lék víða sem fyrr og fór þá um sumarið aftur í ferð um landið, það ár hitaði Sóló fyrir The Searchers sem héldu tónleika í Austurbæjarbíói og aftur lék sveitin í Þórsmörk um verslunarmannahelgina og lék þar m.a. tvö frumsamin lög.

Sóló 1965

Um haustið bar svo við að Sóló hvarf af sjónarsviðinu og liðu þá nokkrir mánuðir uns nokkuð heyrðist frá sveitinni á nýjan leik en það var í mars 1966, þá all breytt og má segja að enn hafi þá orðið til ný hljómsveit. Sú sveit gekk undir nafninu Sóló ´66 og var skipuð þeim Þorkeli gítarleikara, Lárusi bassaleikara, Ólafi Ben trommuleikara og Júlíusi harmonikkuleikara en einnig komu við sögu þeirrar útgáfu þeir Axel Einarsson gítarleikari og Benedikt Pálsson trommuleikari – jafnframt munu þeir Jón Jónsson orgelleikari og Reynir Harðarson trommuleikari eitthvað hafa leikið með sveitinni um það leyti en á þessum tíma var Sóló húshljómsveit í Templarahöllinni þar sem hún sérhæfði sig í gömlu dönsunum.

Eftir 1966 er saga Sóló mjög á reiki, og á næstu fimmtán árum starfaði hún með hléum og miklum mannabreytingum, og reyndar er óvíst að um sömu sveit sé að ræða. Sveitin birtist sumarið 1967 eftir nokkurra mánaða hlé og lék þá nokkuð síðsumars og fram á haustið, lítið liggur fyrir um mannaskipan hennar eftir það nema að 1968 skipuðu hana þeir Júlíus, Benedikt, Þorkell og Lárus, Jón Kristinn Cortes starfaði eitthvað með henni um það leyti líka – líklega sem bassaleikari. Á næstu árum kemur nafn Sóló með reglulegu millibili í blaðaauglýsingum og er þá greinilega mestmegnis í gömlu dönsunum og því í raun allt annars eðlis en bítlasveitin Sóló, þá var hún töluvert að leika í Templarahöllinni, veitingahúsinu Lækjarteigi og jafnvel Klúbbnum – tekið skal fram að allt eins gæti verið um aðra hljómsveit að ræða. Ein heimild segir m.a.s. að sveitin hafi tekið upp nafnið Glæsir og starfað sem húshljómsveití Glæsibæ.

Sóló 1976

Svo virðist sem þessi sveit hafi verið af ýmsum stærðum og gerðum, t.d. starfaði hún undir nafninu Sóló tríó um tíma 1973 og 74 og er engar upplýsingar að finna um meðlimi hennar á þeim árum og næstu árin nema að söngkonurnar Helga Sigþórsdóttir og Kristbjörg Löve sungu með sveitinni, og svo virðist sem Guðmundur Ingólfsson píanóleikari hafi einnig starfað með henni um skeið – þ.e. sé um sömu sveit að ræða. Þannig starfaði sveitin eða sveit með því nafni til ársins 1980. Eins gæti verið að þessi sami kjarni hafi að einhverju leyti starfað undir nafninu B.J. kvintettinn um tíma.

Tók ótrúlegt megi virðast var Sóló síður en svo dauð úr öllum æðum þótt hún hefði hætt störfum (hvort sem það var 1966 eða 1980, árið 1995 kom sveitin t.a.m. saman til að leika í fimmtugs afmæli Ólafs Más og árið 2011 komu þeir saman til að hljóðrita eitt lag. Það var svo árið 2017 að sveitin kom saman á ný og hóf reglulegar æfingar sér til ánægju og hefur frá þeim tíma komið nokkrum sinnum fram, aðallega á Seltjarnarnesi, Guðmar trommuleikari, Lárus bassaleikari, Ólafur Már hljómborðsleikari, Sturla Már gítarleikari og Þorkell Snævar gítarleikari hafa skipað þá útgáfu sveitarinnar.

Árið 2018 sendi Sóló svo frá sér plötuna Fimmtíu árum síðar, ellefu laga plötu með blönduðu efni frá ýmsum tímum (elstu upptökurnar frá 1965) en þar er m.a. að finna tvö frumsamin lög.

Efni á plötum