Listamannaskálinn [tónlistartengdur staður] (1943-68)

engin mynd tiltækListamannaskálinn var ekki eiginlegur skemmti- eða tónleikastaður, enda ætlaður undir myndlistasýningar en ekki tónlist þótt hlutskipti hans yrði að hýsa ballgesti um tíma.

Skálinn var byggður 1943 af Félagi íslenskra myndlistamanna við Kirkjustræti (rétt við alþingishúsið) og var aldrei hugsaður til langs tíma, reyndar var talað um fimm ár í því samhengi. Bráðabirgðahugtakið náði það langt að lítt var skeytt um undirstöður og því skekktist húsið á mettíma og þak tók aukinheldur að leka hressilega.

Fyrst um sinn voru þarna haldnar myndlistasýningar eins og gert hafði verið ráð fyrir en fljótlega fór annars konar starfsemi inn í húsið, þar á meðal veitingasala og skemmtanahald, og voru haldin böll þarna í nokkur ár um og eftir 1950. Myndlistasýningar tóku þó við á nýjan leik í húsinu.

Þar sem húsið varð fljótlega fremur hrörlegur hjallur var farið að tala um að rífa það upp úr 1960 og stóð sú umræða allt til 1968 þegar það var loks rifið til grunna. Margir sem komnir eru vel á aldur geta þó enn yljað sér við minningar frá böllum í Listamannaskálanum.