Storkklúbburinn [tónlistartengdur staður] (1960-61)

Veitinga- og skemmtistaðurinn Storkklúbburinn var staðsettur í íshúsinu svokallaða við Tjörnina í Reykjavík sem stendur við Fríkirkjuveg en þar átti hinn goðsagnakenndi skemmtistaður Glaumbær síðar eftir að vera.

Húsið sem reyndar bar nafnið Herðubreið var reist af Thor Jensen og var framan af eins konar frystigeymsla eða íshús en ís var þá tekinn af tjörninni og geymdur þar. Þegar framsóknarflokkurinn eignaðist húsið í kringum 1955 nýtti hann það undir skrifstofur sínar og aðsetur en hóf svo að leigja það út og árið 1960 opnuðu þeir Þorsteinn Viggósson og Magnús Hannesson veitinga- og skemmtistað undir nafninu Storkklúbburinn.

Storkklúbburinn opnaði haustið 1960 og fljótlega var Lúdó sextettinn sem þá var vinsælasta hljómsveit landsins ráðin þar sem húshljómsveit í aðalsal hússins á neðri hæðinni en sá salur tók á þriðja hundrað manns í sæti, á efri hæðinn var minni salur fyrir um rúmlega hundrað manns og lék þar einkum hljómsveit Finns Eydal en aðrar hljómsveitir munu einnig hafa komið við sögu í húsinu, t.a.m. Falcon, J.J. Quintet o.fl. Efri hæðin var leigð út til einkasamkvæma árshátíða, barnaballa og þess konar skemmtana en líf var í húsinu flesta eða alla daga vikunnar enda var þarna um að ræða veitingastað einnig. Rekstraraðilarnir lögðu jafnframt nokkra áherslu á að fá erlenda skemmtikrafta og tónlistarfólk í húsið.

Storkklúbburinn naut töluverðra vinsælda þann tíma sem hann var opinn, auk dansleikja voru þar haldin djasskvöld og þar var einnig fegurðarsamkepnni Íslands haldin en þrátt fyrir allt gekk reksturinn illa og ekki lagaðist hann þegar það varð að blaðamáli að fólki undir tvítugu væri þar selt áfengi og að gestir staðarins væru skyldaðir til að kaupa áfengi á barnum. Því fór svo að Storkklúbburinn fór á hausinn haustið 1961, um ári eftir að hann tók til starfa og í hans stað opnaði nýr skemmtistaður sem átti eftir að marka spor í sögu slíkra staða hérlendis, það var Glaumbær og naut hann fádæma vinsælda næstu árin.