Sjallinn Ísafirði [tónlistartengdur staður] (1937-2006)

Sjallinn Ísafirði

Sjálfstæðisflokkurinn og félög innan flokksins ráku og áttu nokkur samkomuhús víða um land og eru líklega Sjálfstæðishúsið við Austurvöll (síðar Sigtún, Nasa o.fl.) og Sjallinn á Akureyri þeirra þekktust, en á Ísafirði var einnig slíkt hús sem gekk eins og fleiri slík hús undir nafninu Sjallinn.

Erfitt er að finna heimildir um hvenær húsið, sem stendur við Hafnarstræti 12 á Ísafirði, var byggt en það mun þó hafa verið nokkru fyrir 1930 því árið 1927 var starfrækt í því veitinga- og kaffihús og stöku sinnum fór þar fram eins konar tónleikahald. Húsið gekk á þessum árum undir nafninu Uppsalir og á fjórða áratugnum var þar rekið hótel undir nafninu Hótel Uppsalir þar sem líf og fjör var í húsinu með tilheyrandi dansleikjahaldi enda var þetta á því tímabili sem síðar hefur verið nefnt síldarárin.

Það var svo árið 1937 að sjálfstæðisfélögin á Vestfjörðum eignuðust húsið en þá hafði margs konar starfsemi verið í því um hríð og m.a. var gagnfræðiskólinn á Ísafirði þar til húsa meðan skólinn var á hrakhólum með húsnæði. Fljótlega eftir að sjálfstæðismenn keyptu húsið gerðu þeir á því miklar breytingar, byggðu við það og þá bættist við stór salur, húsið var formlega vígt af þeim vorið 1939 en gekk þó áfram undir nafninu Uppsalir.

Úr Sjallanum

Veitingahús var rekið í Sjálfstæðishúsinu, þar voru áfram haldnir dansleikir og þar voru einnig haldnir fundir, ráðstefnur og blandaðar skemmtanir en svo virðist sem eftir miðjan sjötta áratuginn hafi dansleikjahald legið niðri í húsinu um tíma og hugsanlega var það ekki fyrr en eftir 1965 þegar húsið opnaði eftir gagngerar endurbætur það var leigt fyrir m.a. dansleiki. Það hefur líklega verið á þeim árum sem byrjað var að kalla húsið Sjallann, sbr. samnefnt hús á Akureyri.

Árið 1979 tóku meðlimir hljómsveitarinnar BG flokksins (BG og Ingibjörg) sig til og tóku húsið á leigu og opnuðu þá um haustið skemmtistað undir nafninu Uppsalir, eins og húsið hafði áður verið nefnt. BG flokkurinn kom eðli máli samkvæmt oftast fram á dansleikjum í Sjálfstæðishúsinu næstu árin en einnig léku þar misþekkt bönd eins og Utangarðsmenn, Friðryk, Kan, Grafík, Chaplin, HLH-flokkurinn og Gabríel, jafnframt voru haldnir tónleikar og aðrar tónlistartengdar samkomur í húsinu. Árið 1982 bættu þeir félagar við hliðarsal og stækkaði staðurinn töluvert við það og þremur árum eftir það opnuðu þeir veitngastað í húsinu einnig, með vínveitingaleyfi.

Þeir BG menn voru með reksturinn til ársins 1989 en aðrir tóku svo við keflinu, um miðjan tíunda áratugnum tóku svo hjónin Steinþór Friðriksson (Dúi) og Gróa Böðvarsdóttir við Sjallanum og ráku hann næstu árin. Fjölmennir dansleikir voru í þeirra tíð haldnir í húsinu með mörgum af þekktustu hljómsveitum landsins s.s. Á móti sól, Írafári, Skítamóral, Sálinni hans Jóns míns o.s.frv. og þar ráku þau jafnframt veitingastaðinn Pizza 67 sem naut mikilla vinsælda.

Svið Sjallans á Ísafirði

Dansleikir voru í Sjallanum allt til haustsins 2005 en síðan þá hefur verið annars konar rekstur í húsinu, fyrst var það notað sem félagsmiðstöð unglinga en síðan þá hefur verið verslunarrekstur í því.

Þess má til gamans geta að Sjallinn / Uppsalir komst tvívegis á síður fjölmiðlanna (með 30 ára millibili) þegar hópslagsmál brutust út í og við húsið, annars vegar þegar þýskir og enskir togarasjómenn börðust þar með kjafti og klóm árið 1963 og brutu m.a. þrjár tennur í veitingamanninum sem reyndir að stilla til friðar, svo úr varð skaðabótamál – hins vegar árið 1993 þegar hljómsveitin Jet Black Joe slóst við heimamenn með stóla að vopni eftir dansleik sveitarinnar á staðnum. Sjálfsagt hefur einnig mikið gengið á í húsinu á síldarárunum þótt það hafi ekki þótt svo fréttnæmt að komast á forsíður dagblaðanna fyrir sunnan. Það má samt sem áður ekki líta svo á að Sjallinn hafi verið einhver slagsmálabúlla, slík átök hafa brotist út í hartnær öllum samkomuhúsum landsins.