Sjallinn Akureyri [tónlistartengdur staður] (1963-)

Sjallinn á Akureyri

Sjálfstæðishúsið (Sjallinn) á Akureyri er með þekktustu samkomuhúsum landsins og án nokkurs vafa langvinsælasti skemmtistaður sem starfað hefur í bænum en hér fyrrum þótti ómissandi að fara á Sjallaball með Hljómsveit Ingimars Eydal væri maður á annað borð staddur í höfuðstað Norðlendinga.

Undirbúningur að smíði og hönnun Sjálfstæðishússins á Akureyri mun hafa byrjað 1960 en byrjað var að byggja húsið á lóðinni (Geislagötu 14) tveimur árum síðar eftir að hús sem var á henni hafði verið rifið. Húsið var svo opnað með viðhöfn sumarið 1963, þriggja hæða bygging ásamt kjallara sem hýsti í upphafi um 500 gesti. Það þótti sérlega glæsilegt og innréttingar sem voru úr tekki þóttu afar vel heppnaðar en aðalsalur hússins var einn stór geimur, þess má geta að við „vestur“ barinn var grjóthleðsla og í honum var steinn sem sagður var vera úr Colosseum í Róm. Nokkrar breytingar urðu á húsinu eftir því sem tímanum leið og var Mánasalur t.d. opnaður snemma á áttunda áratugnum.

Hlutafélagið Akur var stofnað utan um byggingu og rekstur hússins og var sjálfstæðisflokkurinn stærstur hluthafa þess en sjálfstæðisfélögin víða um land höfðu þá byggt hús undir svipuðum formerkjum við Austurvöll í Reykjavík, á Ísafirði, Akranesi og víðar, þaðan kemur nafn hússins en fljótlega var almenningur farið að kalla húsið Sjallann.

Frá brunanum 1981

Strax frá upphafi var Hljómsveit Ingimars Eydal ráðin sem húshljómsveit Sjallans en Ingimar hafði þá um nokkurt skeið rekið vinsæla hljómsveit í eigin nafni á Akureyri auk Atlantic-kvartettsins. Hljómsveitin naut strax mikillar hylli og segja má að saga sveitarinnar sé að mestu samofin sögu Sjallans en hús og hljómsveit voru iðulega nefnd í sömu andrá, þá spillti ekki að sveitin sendi frá sér fjölmörg vinsæl lög og plötur og skartaði söngvurum sem urðu landsþekktir með sveitinni – Óðinn Valdimarsson, Þorvaldur Halldórsson, Vilhjálmur Vilhjálmsson, Erla Stefánsdóttir og Helena Eyjólfsdóttir.

Með þessa hljómsveit innanborðs skapaðist einstök stemning í húsinu sem gjarnan hefur verið kölluð Sjallastemningin sem varð til að dansleikir í húsinu nutu mikilla vinsælda og fólk flykktist í Sjallann á Sjallaböllin, kom jafnvel langt að enda urðu böllin í húsinu landsþekkt. Þrátt fyrir að Hljómsveit Ingimars Eydal væri húshljómsveitin komu margir aðrir skemmtikraftar fram í Sjallanum og t.d. var þar boðið upp á leik- og kabarettsýningar (og síðar diskótek) enda þurfti að bjóða upp á fjölbreytileika í húsinu sem opið var öll kvöld vikunnar nema miðvikudagskvöld – fyrri hluta vikunnar til klukkan hálf tólf en lengur í kringum helgarnar, þá var húsið eina sinnar tegundar á Akureyri með vínveitingaleyfi.

Sjallinn var meðal vinsælustu skemmtistaða landsins í ríflega áratug og það var því mikið áfall þegar Ingimar lenti í alvarlegu bílslysi vorið 1976 og sveitinni var sjálfhætt í kjölfarið, eftir það voru hinar ýmsu hljómsveitir sem léku á Sjallaböllunum, aðallega þó Hljómsveit Finns Eydal (bróður Ingimars) og böllum fækkaði nokkuð en þá höfðu einnig nýir staðir að einhverju leyti tekið við keflinu í bænum. Stærsta áfallið reið síðan yfir þegar húsið stórskemmdist í eldsvoða rétt fyrir jólin 1981, þar eyðilagðist þak þess og allar innréttingar einnig svo jafnvel var talað um að ekki yrði dansað í Sjallanum aftur.

Sjallinn eftir breytingarnar 1982

Akureyringar voru þó ekkert að leggja árar í bát, fljótlega var tekin ákvörðun um endurbyggingu og miklar breytingar á Sjallanum og fáeinum mánuðum síðar (í júní 1982) opnaði húsið í endurhannaðri mynd og var nú fjölnota, hafði nokkra minni sali, fleiri bari og tók nú mun fleiri gesti eða um 800-1000 manns. Breytt eignarhald var einnig á húsinu en sjálfstæðisflokkurinn hafði selt nokkrum einstaklingum sinn hlut og því kom ekki til greina að það gengi áfram undir nafninu Sjálfstæðishúsið, þess í stað hlaut það nú formlega nafnið Sjallinn.

Tímarnir voru þó breyttir og þrátt fyrir að ný hljómsveit Ingimars Eydal kæmi til sögunnar var gamla Sjallastemningin að mestu horfin og eftir það má segja að húsið hafi svolítið verið eins og hvert annað samkomuhús. Aðrar hljómsveitir tóku við keflinu og flestar af vinsælustu sveitum landsins hafa leikið þar á dansleikjum síðan, hér má nefna sveitir eins og Stuðmenn, Skriðjöklar, Sálin hans Jóns míns, Bítlavinafélagið, Skítamórall, Sóldögg, Greifarnir, Í svörtum fötum, Nýdönsk, Jet Black Joe, Írafár og SSSól og þannig mætti áfram lengi telja.

Sjallinn

Dansleikir voru auðvitað fjölmennir í húsinu áfram en með allt öðru sniði en áður og rektsturinn gekk ekki eins vel og áður, reynt var að bjóða upp á fjölbreyttar skemmtanir og tónlistarsýningar komu t.d. til skjalanna sem og pöbb í kjallaranum þar sem selt var bjórlíki en það dugði ekki til og árið 1986 eignaðist Iðnaðarbankinn húsið eftir uppboð, bankinn var ekki lengi eigandi Sjallans og Ólafur Laufdal sem þá hafði verið umsvifamikill í skemmtanahaldinu á höfuðborgarsvæðinu eignaðist húsið, í kjölfarið var áherslan lögð á sömu forskrift og hann hafði t.d. boðið upp á á Broadway og Hótel Íslandi, tónlistarsýningar, mat og dansleik á eftir.

Enn gekk reksturinn ekki sem skyldi og þegar Ólafur varð gjaldþrota eignuðust nýir eigendur Sjallann, síðan þá hafa nokkrir rekstraraðilar verið með húsið en starfsemi hefur verið fremur lítil í því síðustu árin þótt boðið hafi reglulega verið upp dansleiki í því. Pöbbar, veitingastaðir, verslunir, hárgreiðslustofur og ýmislegt annað hafa einnig verið í húsinu og um tíma stóð til að breyta því í hótel, jafnvel að rífa það en Sjallinn stendur enn á sínum stað við Geislagötu og eftir því sem best er vitað stendur ekki annað til í bili. Það getur tíminn einn leitt í ljós.