Ingimar Eydal (1936-93)

Ingimar Eydal1

Ingimar Eydal

Ingimar Eydal er þekktastur norðlenskra tónlistarmanna fyrr og síðar, og þá er á engan hallað. Hljómsveit hans skóp einstaka stemmingu í Sjallanum á Akureyri sem ekki verður endurvakin en auk þess þótti Ingimar skemmtilegur persónuleiki og hvers manns hugljúfi.

(Róbert) Ingimar Harðarson Eydal fæddist á Akureyri haustið 1936 og hneigðist áhugi hans snemma að hvers kyns tónlist. Hann nam píanóleik hjá frænku sinni og fjölskyldan sá hann fyrir sér sem klassískan píanóleikara en það átti eftir að breytast, strax á barnsaldri fékk Ingimar t.a.m. áhuga á djasstónlist og hafði það vafalaust einhver áhrif á það að hann fór ekki í klassíkina.

Strax á unglingsárum hóf hann að leika með hljómsveitum, t.d. nafnlausri skólahljómsveit í Gagnfræðiskólanum á Akureyri, 1949 var Ingimar kominn í Hljómsveit Karls Adolfssonar en hann var þá einungis á fjórtánda ári, sú sveit spilaði á Hótel Norðurlandi eða Landinu eins og það var kallað. Ingimar spilaði í þeirri sveit til 1951 en þegar hann fór í nám við Menntaskólann að Laugarvatni hóf hann að leika þar með skólahljómsveit.

Að kennaranámi loknu hélt Ingimar áfram að leika með ýmsum hljómsveitum, t.d. var hann með eigin sveit 1953-55 sem lék á Hótel KEA (fyrstu útgáfu Hljómsveitar Ingimars Eydal, sem var þó nafnlaus), þá var Ingimar í Hljómsveit Jónasar Dagbjartssonar veturinn 1956-57 í Reykjavík en þar var einnig fyrir Finnur bróðir hans, þeir bræður áttu eftir að starfa lengi saman síðar. Ingimar fluttist norður á heimaslóðir og var þar m.a. í djasssveitinni Modern Jazz Quartet Akureyrar áður en hann stofnaði Atlantic kvartettinn ásamt Finni bróður sínum 1958. Sú sveit starfaði í fjögur ár og myndaði að nokkru þann kjarna sem myndaði síðar Hljómsveit Ingimars Eydal. Atlantic kvartettinn lék inn á fjölmargar litlar hljómplötur með söngvurunum Helenu Eyjólfssyni og Óðni Valdimarssyni og voru það fyrstu plöturnar sem Ingimar lék inn á.

Ingimar Eydal og félagar

Ingimar Eydal og félagar í hljómsveit hans

Hljómsveit kennd við Ingimar sjálfan var síðan stofnuð 1962 þegar Atlantic kvartettinn leið undir lok, og lék við góðan orðstír í Alþýðuhúsinu. Þegar Sjálfstæðishúsið (Sjallinn) á Akureyri opnaði 1963 var sveitin ráðin sem hljómsveit hússins. Hljómsveit Ingimars naut strax mikilla vinsælda og lagði grunninn að margra ára Sjallastemmingu sem nefnd var, og varð Ingimar landsþekktur fyrir vikið enda gaf sveitin út fjölmargar plötur með lögum sem mörg hver urðu sígild. Segja má að þær vinsældir hafi varað allan sjöunda áratuginn og allt fram á miðjan þann áttunda eða til 1976 þegar Ingimar lenti í alvarlegu umferðarslysi sem varð til að hann varð að hætta allri spilamennsku um nokkurra ára skeið. Um leið var Hljómsveit Ingimars sjálfhætt.

Segja má að Ingimar hafi þurft að leggja alla spilamennsku til hliðar um þriggja ára skeið í kjölfar slyssins en 1979 kom hann aftur fram á sjónarsviðið, fyrst með því að leika dinner fyrir matargesti og síðan með stofnun nýrrar sveitar, Astró tríósins sem var m.a. húshljómsveit á Hótel KEA. Fljótlega var hann kominn á fullt á nýjan leik og árið 1983 var Hljómsveit Ingimars Eydal endurreist, í raun var hún beint framhald af Astró tríóinu en nú lék sveitin víðs vegar um land og jafnvel erlendis á meðan Hljómsveit Ingimars hin fyrri hafði að mestu leyti haldið sig á heimaslóðum enda húshljómsveit Sjallans um margra ára skeið. Sveitin hafði nú m.a. að geyma dóttur Ingimars, Ingu Eydal. Ingimar var ennfremur virkur í djasslífinu nyrðra og starfrækti hljómsveit sem var nafnlaus en hefur verið nefnd Ingimar Eydal og félagar.

Ingimar söðlaði um haustið 1985 og fluttist til Reykjavíkur þar sem hann stundaði framhaldsnám, hljómsveit hans starfaði áfram á Akureyri á meðan (undir nafninu Áning (Án Ingimars)) en Ingimar sjálfur lék tónlist fyrir matargesti veitinga- og skemmtistaða í eigu Ólafs Laufdal. Reykjavíkurvera Ingimars varaði þó einungis eitt ár áður en hann fór aftur á heimaslóðir og hélt áfram þar sem frá var horfið.

Árið 1987 var sett á svið á Akureyri sýningin Stjörnur Ingimars í 25 þar sem Ingimar og ýmsir tengdir honum komu fram á söngskemmtun í tilefni af 25 ára afmælis Hljómsveitar Ingimars Eydal. Sýningin naut mikilla vinsælda, raunar svo mikilla að hún var flutt suður til Reykjavíkur til sýninga. Smám saman höfðu menn áttað sig á þætti Ingimars í íslensku tónlistarlífi og þrátt fyrir að hann fremur útsetjari og hljóðfæraleikari en tónskáld var hann árið 1992 heiðraður fyrir framlag sitt til tónlistarinnar með Skrautfjöðrinni sem veitt var í tengslum við sönglagakeppnina Landslagið. Þar var Ingimar reyndar í dómnefnd.

Síðla árs 1991 greindist Ingimar með nýrnakrabbamein sem síðan dró hann til dauða ríflega ári síðan en allt fram til dauðadags spilaði hann þótt hann bæri veikinda sinna greinileg merki. Ingimar lést í ársbyrjun 1993 aðeins fimmtíu og sjö ára að aldri.

Minningartónleikar voru haldnir um Ingimar 1996 en þá hefði hann orðið sextugur, um svipað leyti kom út plata Gunnars Gunnarsson píanóleikara, Skálm en hann tileinkaði hana minningu Ingimars.

Samhliða spilamennsku með hljómsveit sinni hafði Ingimar ætíð sinnt öðrum störfum, hann kenndi t.d. við barnaskólana á Dalvík og Akureyri, fékkst við tónlistar- og tónmenntakennslu og síðar starfaði hann einnig sem umboðsmaður fyrir ferðaskrifstofu og flugfélag, hjá Gefjunni, við kórstjórn, tónlistargagnrýni, dagskrárgerð í útvarpi og fleira tónlistartengt. Hann var aukinheldur virkur í félagsmálum nyrðra og stjórnmálum auk þess að vera bindindismaður og ötull baráttumaður gegn neyslu vímuefna.

Mottó Ingimars og galdur hans við farsælan tónlistarferil og vinsældir sveita hans var að stemmingin réði lagavalinu, fyrirfram ákveðin prógrömm virkuðu lítið en best væri að „lesa salinn“ og haga lagavalinu eftir því. Hann var jafnvígur á alla tónlist, hvort sem hún var í klassíska geiranum, djassi eða rokki og því voru hæg heimatökin þegar kom að því að spila fyrir fólkið.

Lög hljómsveita Ingimars, Atlantic kvartettsins og Hljómsveitar Ingimars Eydal má finna á plötum með sveitunum og safnplötum en Ingimar lék sjálfur lítið inn á plötur annarra, þó má hér nefna plötu með lögum úr söngleiknum Allra meina bót þar sem hann lék með Hljómsveit Finns Eydal bróður síns (1961), plötu Óðins Valdimarssonar, Blátt oní blátt, litla plötu Hörpu Gunnarsdóttur (1975) og litla plötu hljómsveitarinnar Ljósbrár (1973), svo dæmi séu tekin.

Efni á plötum

Sjá einnig Hljómsveit Ingimars Eydal

Sjá einnig Ingimar Eydal og félagar

Sjá einnig Atlantic kvartettinn

Sjá einnig Astró tríó