Atlantic kvartettinn (1958-61)

Atlantic kvartettinn 1958

Atlantic kvartettinn var eins konar undanfari hinnar eiginlegu Hljómsveitar Ingimars Eydal en sveitin var stofnuð sumarið 1958 af bræðrunum Ingimari og Finni Eydal, Edwin Kaaber og Sveini Óla Jónssyni. Hljómsveit Ingimars hafði reyndar starfað í einhverri mynd í nokkur ár og stundum var Atlantic kvartettinn reyndar kölluð Hljómsveit Ingimars Eydal þannig að saga sveitanna er samtvinnuð.

Blómaskeið Hljómsveitar Ingimars var hins vegar síðar. Í Atlantic kvartettnum lék Finnur einkum á klarinettu og saxófón en Ingimar á hvers kyns hljómborðshljóðfæri. Edwin var gítarleikari og Sveinn Óli trommuleikari. Fljótlega bættist Óðinn Valdimarsson söngvari í hópinn og stuttu síðar einnig Helena Eyjólfsdóttir en hún var þá búsett í Reykjavík, hún var aðeins sextán ára gömul en mjög efnileg söngkona. Finnur var sendur suður til að gera henni atvinnutilboð en sveitin hafði þá ráðið sig til að spila í Alþýðuhúsinu á Akureyri um sumarið (1958).

Samstarfið gekk prýðilega og um haustið lék sveitin við góðan orðstír á tónleikum í Reykjavík. Þar var þeim boðinn plötusamningur og komu út átta litlar plötur undir merkjum Íslenzkra tóna, en þær voru gefnar út undir nöfnum söngvaranna Óðins og Helenu á árunum 1958-60. Plöturnar nutu mikilla vinsælda og hafa lögin Gamla gatan, Magga, Manstu ekki vinur, Einsi kaldi úr Eyjunum og Ég skemmti mér lifað síðan góðu lífi.

Atlantic

Atlantic kvartettinn naut gríðarlegra vinsælda norðanlands og reyndar um land allt eftir að plöturnar komu út, haustið 1959 fluttist Óðinn til Reykjavíkur þegar honum bauðst að syngja með KK sextettnum en því tilboði gat hann ekki hafnað. Hljómsveitin starfaði reyndar eingöngu yfir sumartímann en á veturna lék Finnur sunnanlands með Hljómsveit Svavars Gests samhliða námi.

Finnur starfrækti veturinn 1960-61 hljómsveit Finns Eydal sunnan heiða en sumarið 1961 fóru þau norður og spiluðu enn þar undir Atlantic nafninu, sem var í grunninn sama sveit, Ingimar tók þá sæti sitt en hann hafði ekki verið í sveit Finns. Atlantic starfaði því í fjögur ár, eða segja má að starfstími hennar hafi verið fjögur sumur.

Lögin sem sveitin gaf út á sínum tíma hafa komið út á ýmsum safnplötum og má t.d. Nefna safnplötuna Allt fyrir alla sem gefin var út í nafni Ingimars Eydal 2011 en hann hefði þá orðið 75 ára.

Efni á plötum