Skólakór Gagnfræðaskólans á Akureyri (1960-88)

Skólakór Gagnfræðaskóla Akureyrar

Margt er á huldu varðandi kórsöng nemenda við Gagnfræðaskólann á Akureyri en þessi umfjöllun miðast við að skólakór hafi verið starfandi við skólann nokkuð samfellt frá 1964 til 1988, þau ártöl eru þó engan veginn marktæk og nokkuð öruggt er að kórastarf var iðkað mun lengur við skólann en stofnunin var starfrækt undir því nafni á árunum 1930-97. Þessir kórar sungu á skemmtunum bæði innan og utan skólans.

Áskell Snorrason var líkast til fyrsti söngkennari Gagnfræðaskólans á Akureyri og þar sem hann stjórnaði ýmsum kórum um ævina hlýtur að teljast líklegt að hann hafi sett saman kór við skólann. Áskell var starfandi við skólann á upphafsárum hans en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvernig söngmálum var háttað í skólanum fyrr en nafni hans, Áskell Jónsson kom til starfa við skólann haustið 1943. Áskell Jónsson starfaði við skólann allt til vorsins 1974 en einu staðfestu tímasetningarnar sem hægt er að miða skólakór við undir stjórn hans er 1960, 1964-65 og 1969, myndin hér að ofan af fjölmennum skólakór skólans er líklega töluvert eldri en því miður er litlar upplýsingar að finna um hana – hún er þó að öllum líkindum tekin á fimmta áratugnum.

Skólakór Gagnfræðaskólans á Akureyri undir stjórn Ingimars Eydal

Það var enginn annar en Ingimar Eydal sem tók við söngkennslu- og kórstjórastarfinu af Áskeli haustið 1974 en Ingimar hafði þá reyndar starfað um nokkurra ára skeið við skólann. Ingimar hélt uppi nokkuð samfelldu skólakórastarfi meðan hans naut við en hversu lengi liggur þó ekki fyrir, það var þó að minnsta kosti til 1988 en Ingimar lést 1993.

Engar upplýsingar er að finna um skólakór við Gagnfræðaskólann á Akureyrir eftir 1988 en upplýsingar þar af lútandi má gjarnan senda Glatkistunni.