Skólakór Héraðsskólans á Reykjum (1934-81)

Skólakór Héraðsskólans á Reykjum ásamt Matthíasi Jónssyni stjórnanda

Upplýsingar um skólakór Héraðsskólans á Reykjum í Hrútafirði eru af skornum skammti, skólinn sem starfaði á árunum 1931-82 skartaði á köflum skólakór og hér er mestmegnis fyllt í eyður en um leið óskað eftir frekari upplýsingum um kórstarfið á Reykjum.

Vitað er að Áskell Jónsson frá Akureyri stjórnaði kór við skólann meðan hann var þar söngkennari um fimm ára skeið á árunum 1934-39 en ekki liggur fyrir hvort sá kór starfaði allan tímann í tíð hans. Skólastarf lá niðri í þrjá vetur 1940-43 eftir að breski herinn lagði skólahúsnæðið undir sig á stríðsárunum en að því loknu var Matthías Jónsson söngkennari skólans, kenndi þar á árunum 1943-52 – það sama gildir um hann og Áskel að upplýsingar vantar um hvort um var að ræða samfellt kórastarf.

Svo virðist sem Björg Björnsdóttir söngkennari hafi starfað við skólann líkast til á sjötta áratugnum og stjórnaði þá kór en hún starfaði líklega ekki lengi við skólann. Engar upplýsingar er að finna um hvort skólakór starfaði að Reykjum á sjöunda og áttunda áratugnum en veturinn 1980-81 og líklega í einhvern tíma þar á undan mun hafa verið kór í skólanum, engar upplýsingar er hins vegar að finna um hver stjórnaði honum. Skólastarf lagðist svo af við Héraðsskólann á Reykjum í framhaldi af því.