Skólakór Héraðsskólans á Laugarvatni (1930-63)

Skólakór Héraðsskólans á Laugarvatni 1936

Lengi vel var starfræktur skólakór við Héraðsskólann á Laugarvatni og átti þar Þórður Kristleifsson stóran hlut að máli en hann stjórnaði kórum í yfir þrjátíu ár við skólann.

Héraðsskólinn á Laugarvatni hafði tekið til starfa haustið 1928 og um tveimur árum síðar kom Þórður þangað sem kennari og setti saman kór líklega strax á fyrsta starfsvetri sínum. Þeim kór stjórnaði hann að öllum líkindum alveg samfellt til 1963 þegar hann lét af störfum fyrir aldur sakir en hann var þá orðinn sjötugur – þess má geta að Þórður náði 104 ára aldri. Árið 1953 hóf Þórður að kenna við Menntaskólann á Laugarvatni sem þá hafði verið stofnaður sem sjálfstæð eining en hann var þó áfram við héraðsskólann sem söngkennari og kórstjóri til 1963 sem fyrr segir.

Kórinn söng við margs konar tækifæri innan og utan skólans og kom m.a.s. fram í útvarpinu, þá var söngur hans líklega einhvern tímann hljóðritaður og settur á plötur á vegum Ríkisútvarpsins. Reyndar voru kórarnir lengst af í rauninni fimm því Þórður skipti honum niður í smærri einingar, karlakór, kvennakór, blandaðan kór eldri nemenda, blandaðan kór yngri nemenda og svo stóri kórinn þar sem allir kórarnir sameinuðust. Þá kom fyrir einnig að kórar héraðsskólans og menntaskólans (sem Þórður stjórnaði einnig á árunum 1953-65) sungu saman og var það býsna fjölmennur kór, reyndar stjórnaði Þórður einnig kór Húsmæðraskólans á Laugarvatni einnig. Meðal þekktra söngvara sem sungu með kór héraðsskólans má nefna Sigríði G. Schiöth, Þorstein Eggertsson og systkinin Elly og Vilhjálm Vilhjálmsbörn.

Eftir að Þórður lét af störfum lagðist kórastarf að öllum líkindum niður við Héraðsskólann á Laugarvatni og færðist það starf yfir í menntaskólann þótt ekki væri þar alveg samfellt kórastarf næstu áratugina en sá kór er enn starfandi.

Upplýsingar varðandi kórastarf í héraðsskólanum eftir 1963 má gjarnan senda Glatkistunni en skólinn starfaði allt fram á tíunda áratuginn.