Þórður Kristleifsson (1893-1997)

Þórður Kristleifsson

Þórður Kristleifsson var mikill tónlistarfrömuður og átti þátt í að kynna Íslendingum tónlist með ýmsum hætti.

Þórður fæddist (1893) og ólst upp í Borgarfirðinum, ekki liggur fyrir um tónlistaráhuga hans í æsku en hann mun einhverja tilsögn hafa fengið í píanóleik.

Hann fékkst að mestu við landbúnað í sveitinni sem ungur maður og það er ekki fyrr en hann er kominn nokkuð á þrítugsaldur sem eitthvað fór að kveða að honum í tónlistinni, hann hafði reyndar verið meðal stofnenda karlakórsins Bræðrakórsins í Borgarfirði 1915 sem starfaði í nokkur ár, en það er einhvern tímann laust eftir 1920 sem hann fór erlendis þar sem hann átti eftir að nema sig í sönglistinni en Þórður var tenór. Fyrst hélt hann til Danmörku þar sem hann starfaði við landbúnað en þaðan fór hann til Þýskalands og síðan Ítalíu til að nema söng og tónlist.

Þórður var alkominn heim til Íslands sumarið 1927, hafði þá reyndar komið heim sumarið 1924 og hélt þá nokkra einsöngstónleika í heimabyggð, en heim kominn varð minna úr söngferli hans en ætlað var upphaflega. E.t.v. má skýringinuna finna í því að lítil eftirspurn var eftir tónleikahaldi á þessum kreppuárum, nokkra tónleika hélt Þórður þó í Borgarfirðinum.

Þannig lá beinast við Þórði að kenna öðrum tónlist og það varð síðar aðalstarfi hans, hann hóf að kenna söng og fór t.d. til Þýskalands 1929 gagngert til að kynna sér söngkennslu þar í tvo mánuði.

Fyrst í stað kenndi hann í Reykjavík og var í kjölfarið skipaður af menntamálaráðherra til að kanna söngkennslu í skólum og kynna tillögur til úrbóta. Hann átti þannig drjúgan þátt í að efla sönglistina meðal skólafólks og alþýðunnar, og eitt af afrekum hans á því sviði var að gefa út sönglagahefti undir nafninu Skólasöngvar árið 1930. Fleiri slík sambærileg hefti áttu eftir að koma út fyrir hans tilstuðlan, með alls um fjögur hundruð sönglögum en hann naut aðstoðar ýmissa nafntogaðra tónskálda sem sendu honum lög.

Það var síðan árið 1930 sem Þórður réðist sem söngkennari til nýstofnaðs Hérðasskólans á Laugarvatni sem á þessum fyrstu árum gekk undir nafninu Laugarvatnsskóli. Þar átti hann eftir að ílendast í áratugi, fyrst og fremst sem söngkennari en einnig sem þýskukennari og sitthvað fleira. Þegar Menntaskólinn á Laugarvatni var stofnaður 1953 kenndi hann áfram söng þar eða allt þar til hann varð sjötugur árið 1963, þá reyndar var hann ekki alveg tilbúinn að hætta og átti eftir að kenna söng við Menntaskólann í Reykjavík um tíma.

Þórður stjórnaði allt upp í fimm kórum í senn á Laugarvatni og var hann mikils metinn þar, og þegar Kór ML gaf út plötuna Upp með þúsund radda brag árið 1997, var hún tileinkuð minningu Þórðar en hann var þá nýlátinn.

Og Þórður lét ekki þar við sitja að kenna eingöngu á skólatíma heldur nýtti hann sumrin einnig við að leiðbeina kórum um land allt og átti þannig, sem fyrr segir, stóran þátt í að móta kórasönglistina hér á landi og var því mikill frumkvöðull á því sviði.

Þórður varð með langlífustu mönnum Íslandssögunnar, hann varð 104 ára gamall og þegar hann lést var hann þá elstur karlmanna á Íslandi. Á aldarafmæli hans var hann heiðraður með ýmsum hætti, t.a.m. fékk hann heimsóknir kóra sem héldu fyrir hann tónleika á Droplaugastöðum þar sem hann bjó síðustu æviárin sín. Hann fékk fálkaorðuna fyrir framlag sitt til sönglistarinnar á Íslandi.

Þórður lést 1997.