Þórgunnur nakin (1997-98)

Þórgunnur nakin

Hljómsveitin Þórgunnur nakin frá Selfossi (og Hólmavík) vakti á sínum tíma fremur litla athygli nema e.t.v. fyrir nafnið sem þótti frumlegt.

Sveitin tók þátt í Músíktilraunum vorið 1997 og spilaði þar eins konar hart rokk í ætt við það dauðarokk sem tilheyrði samnefndri senu í kringum 1990. Meðlimir Þórgunnar nakinnar í Músíktilraunum voru Gunnlaugur Pétursson gítarleikari, Sigurgrímur Jónsson gítarleikari (Forgarður helvítis, Múspell o.fl.), Rúnar Már Geirsson trymbill, Arnar Snæberg Jónsson söngvari og Magnús Halldór Pálsson bassaleikari (Dark harvest, Forgarður helvítis o.fl.).

Sveitin komst ekki í úrslit tilraunanna en poppaði aftur upp í Rokkstokk hljómsveitakeppninni í Keflavík ári síðar (1998), í kjölfarið kom lag með sveitinni út á safnplötu tengdri keppninni. Þá var sveitin skipuð sömu meðlimum utan þess að Vernharður Sigurðsson hafði tekið gítarnum af Gunnlaugi.

Sveitin mun ekki hafa starfað lengi á sínum tíma en gæti hafa komið aftur saman á síðari árum.