Þórhallur Árnason (1891-1976)

Þórhallur Árnason

Þórhallur Árnason sellóleikari var einn frumherja í íslensku tónlistarlífi á síðustu öld og átti einnig þátt í eflingu félagsstarfs og réttinda tónlistarmanna.

Þórhallur fæddist í Njarðvíkum 1891 en ólst að mestu upp á Hjalteyri. Hann fór tvítugur til Þýskalands til náms í trompetleik en endaði í Danmörku og lærði þar á selló. Hann var þó mestan þann tíma sem hann bjó erlendis, í Þýskalandi, og spilaði mikið þar, m.a. starfrækti hann strengjatríó sem bar nafnið Hassetríóið. Þórhallur lék oftsinnis í útvarpi í Þýskalandi, iðulega íslensk þjóðlög.

Þórhallur kom ekki heim endanlega fyrr en 1931 eftir tveggja áratuga útlegð, hann hafði þó komið heim í nokkur skipti í frí og til tónleikahalds. Í eitt þeirra skipta lék Þórhallur einleik á sellóið inn á tveggja laga plötu sem kom út á vegum Fálkans en upptökumenn frá Columbia voru þá hér á landi til að taka upp fjölda platna í tilefni af Alþingishátíðinni. Plata Þórhalls var sú fyrsta hér á landi sem hafði að geyma einleik hljóðfæraleikara. Aðeins ein önnur upptaka virðist hafa verið gefin út með sellóleik Þórahalls en það var á plötu með Einari Kristjánssyni söngvara.

Hér heima fékkst Þórhallur við tónlistarkennslu en lék ennfremur á fjölda tónleika sem og í útvarpi, hann fékkst einnig við öðruvísi verkefni eins og þegar hann spilaði ásamt fleirum undir kvikmyndasýningum. Þórhallur lék með Útvarpshljómsveitinni og var einn af þeim sem léku með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun 1950.

Þórhallur var ennfremur áberandi í réttindamálum Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) sem hann átti þátt í stofna ásamt Bjarna Böðvarssyni í ársbyrjun 1932, þar var hann framalega í flokki og var síðar meir kjörinn heiðursfélagi.

Eitthvað samdi Þórhallur af tónlist sjálfur og hans þekktasta lag er án efa Skúlaskeið við ljóð Gríms Thomsen.

Þórhallur lést 1976.

Efni á plötum