Afmælisbörn 13. janúar 2023

Þórhallur Árnason

Sjö afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:

Óskar Páll Sveinsson hljóð- og upptökumaður er fimmtíu og sex ára í dag. Hann var á yngri árum söngvari og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Medium en sneri sér síðan að upptökufræðum, starfaði sem tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu og við upptökur og hljóðblöndun á fjölmörgum plötum hér heima áður en hann fluttist til Bretlands og vann þar við upptökur um tíma áður en hann kom aftur til Íslands. Í seinni tíð hefur Óskar Páll í auknum mæli snúið sér að tónsmíðum og samdi hann t.a.m. Eurovision framlag okkar Íslendinga árið 2009, Is it true? sem Jóhanna Guðrún söng.

Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari og konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands er einnig fimmtíu og sex ára gömul í dag. Hún lauk einleikaraprófi hér heim og framhaldsnámi í Bandaríkjunum, og hefur margsinnis komið fram sem einleikari með ýmsum hljómsveitum af öllum stærðum og gerðum hér heima og erlendis. Einnig hafa komið út nokkrar plötur í nafni Sigrúnar auk þess sem hún hefur leikið á plötum fjölmargra annarra listamanna.

Björgvin Ingi Pétursson bassaleikari Jakobínurínu sem starfaði á árunum 2004-09 og sigraði Músíktilraunir 2005, er þrjátíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Hann hefur ekki fengist við tónlist síðustu árin svo vitað sé.

Þorvaldur Jónsson harmonikkuleikari (f. 1931) hefði átt afmæli í dag en hann lést fyrr á þessu ári. Sagan segir að hann hafi verið einungis ellefu ára gamall þegar hann lék á balli í fyrsta skipti en hann lék á fjölda slíkra balla sem ungur maður, ýmist einn eða með öðrum. Þá starfaði Þorvaldur með gömlu dansa hljómsveitum eins og Þristum og Tríó Þorvaldar, og reyndar lék hann opinberlega langt fram eftir níræðisaldrinum. Þorvaldur sendi einnig frá sér nokkrar plötur.

Sigvaldi (Stefánsson) Kaldalóns læknir og tónskáld (1881-1946) átti afmæli á þessum dagi. Hann samdi fjöldann allan af þekktum sönglögum sem finna má víða á plötum og heyrast mjög reglulega. Þeirra á meðal má nefna lög eins og Á Sprengisandi, Svanasöngur á heiði, Hamraborgin og mörg önnur.

Pétur Ingi Þorgilsson hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann lést aðeins tvítugur að aldri árið 1993. Pétur, sem fæddist 1973 var efnilegur tónlistar- og myndlistamaður og hafði verið öflugur í tónlistarlífi Menntaskólans í Reykjavík. Hann hafði m.a. komið við sögu á árshátíðarplötum skólafélagsins og eftir andlát hans gaf hljómsveitin Neol Einsteiger út plötu til minningar um hann.

Þá hefði Þórhallur Árnason sellóleikari (1891-1976) einnig þennan afmælisdag. Þórhallur var einn af fyrstu Íslendingunum sem menntaði sig í tónlist erlendis, hann nam í Danmörku og Þýskalandi og kom heim eftir um tveggja áratuga útlegð. Þá starfaði hann við tónlistarkennslu, lék margsinnis í útvarpinu og hélt tónleika en hann lék m.a. með Útvarpshljómsveitinni og fyrstu útgáfu Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann lét sig réttindamál tónlistarmanna varða og var framarlega í þeim efnum.

Vissir þú að barnakór starfaði á vegum Ríkisútvarpsins um miðja síðustu öld?