Þorvaldur Jónsson [1] (1931-2022)

Þorvaldur Jónsson

Þorvaldur Jónsson harmonikkuleikari kom víða við á sínum tónlistarferli, hann starfrækti t.a.m. hljómsveitir, samdi tónlist og gaf út nokkrar plötur.

Þorvaldur fæddist á Torfastöðum á Fljótsdalshéraði árið 1931 og bjó þar fyrstu æviárin, hann gerðist síðan bóndi fyrir austan en brá búi 1967 og flutti ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þar sem hann bjó og starfaði mest síðan, lengst af sem stjórnandi þungavinnuvéla en einnig hjá Reykjavíkurborg.

Hann byrjaði snemma að leika á harmonikku en eldri bræður hans gerðu slíkt hið sama og því lá það beinast við hjá honum enda var hann einungis ellefu ára gamall þegar hann lék í fyrsta skipti á balli eystra. Sagan segir að þegar harmonikkuleikarinn á staðnum hafði örmagnast vegna þreytu hafi hann tekið við. Hann lék síðar á böllum, ýmist einn eða með öðrum s.s. Ólafi Magnússyni eða bróður sínum, yfirleitt kallaðir Torfastaðabræður.

Þegar Þorvaldur fluttist til Reykjavíkur hóf hann að leika með gömludansasveitinni Þristum en þegar hún leið undir lok stofnaði hann og starfrækti eigin sveit, Tríó Þorvaldar. Fjölmargir léku með honum í þeirri sveit í gegnum tíðina, m.a. aðrir fjölskyldumeðlimir s.s. dóttir hans Vordís Þorvaldsdóttir en sveitin gekk oft undir nafninu Tríó Þorvaldar og Vordís. Eftir að Tríó Þorvaldar hætti störfum fór Þorvaldur að leika einn á nikkuna við ýmis opinber tækifæri, eins og á jólaskemmtunum og fyrir eldri borgara, jafnvel þótt hann væri sjálfur kominn á níræðis aldur.

Fyrsta plata Þorvaldar kom út 1995 og hét Á heimaslóð, á þeirri plötu hafði hann aðstoðarmenn s.s. félaga sína úr Tríói Þorvaldar en platan hafði að geyma lög hans við ljóð ýmissa ljóðskálda. Næsta plata hlaut sama titil, Á heimaslóð en hún kom út árið 1999 og innihélt flutning Þorvaldar á eigin lögum. Og boltinn tók að rúlla, næsta plata var jólaplata, Hátíð á heimaslóð, á henni var að finna sígild jólalög auk jólalaga eftir hann sjálfan, ýmsir söngvarar sungu lögin en hljóðfæraleikurinn var mestmegnis í höndum Þorvaldar og Einars Magnússonar er lék á munnhörpu. Einar kom einnig við sögu á næstu plötu Þorvaldar sem hét Ungir í anda: Einar Magnúson munnharpa, Þorvaldur Jónsson harmonikka, og kom út 2001. Á henni voru lög úr ýmsum áttum en á næstu plötu, þeirri fimmtu (2002) var aftur að finna frumsamið efni Þorvaldar. Hún hét Á götumarkaðinum: Þorvaldur Jónsson spilar af fingrum fram nokkur lög eftir sjálfan sig á harmonikku frá Tónabúðinni og hljómborð frá Heimilistækjum. Síðasta platan sem Þorvaldur sendi frá sér kom út 2003 og hét Á fjöllum: 13 frumsamin lög eftir Hreggvið og Þorvald frá Torfastöðum. Allar plöturnar sex gaf Þorvaldur út sjálfur.

Lög Þorvaldar og hann sjálfur reyndar einnig hafa poppað upp á ólíklegustu stöðum, hann samdi t.a.m. svokallað Breiðholtslag við ljóð Helga Seljan sem Gerðubergskórinn flutti á sínum tíma og hann leikur sjálfur á plötu hljómsveitarinnar Grasasna (úr Borgarfirðinum), svo dæmi séu tekin.

Þorvaldur lést vorið 2022 liðlega níutíu og eins árs gamall.

Efni á plötum

Sjá einnig Torfastaðabræður