Afmælisbörn 12. janúar 2023

Pan Thorarensen

Tvö afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag:

(Sæmundur) Rúnar Þórisson gítarleikari frá Ísafirði er sextíu og sjö ára gamall í dag en hann hefur komið víða við á löngum tónlistarferli. Rúnar starfaði á árum áður með sveitum eins og Ýr, Danshljómsveit Vestfjarða, Grafík, Haukum, Dínamít og Dögg en henn vann einnig náið með Rafni Jónssyni á sólóplötum hans. Á síðari árum hefur Rúnar gefið út sólóplötur og plötur í félagi við aðra. Rúnar er faðir söngkvennanna Margrétar og Láru Rúnars.

Og svo er það raftónlistarmaðurinn Pan Thorarensen sem einnig kallar sig Beatmakin Troopa en hann fagnar fjörutíu og tveggja ára afmæli á þessum degi. Hann hefur gefið út plötur undir þessum nöfnum en einnig starfað með raf- og hiphop-sveitum eins og Stereo Hypnsis, Ambátt og Audio Improvement auk þess að halda utan um útgáfufyrirtæki og félagsskap eins og 3angle production og Electric Ethincs.

Vissir þú að maður að nafni Bjarni Guðmundsson söng oft rokklög opinberlega undir lok sjötta áratugarins, svartmálaður undir aukasjálfinu Barrelhouse Blackie?