
Subterranean 1997
Rapp hip hop sveitin Subterranean var merkileg sveit og var ásamt Quarashi frumkvöðlasveit í íslenska rappvorinu rétt fyrir síðustu aldamót, og ruddi brautina fyrir sveitir eins og XXX Rottweiler og fleiri sem fetuðu í spor hennar. Sveitirnar tvær voru þá afar ólíkar, á meðan Quarashi sótti meira í rokkhliðar rappsins var Subterranean meira undir áhrifum hip hopi austurstrandar Bandaríkjanna og því nær grunngildum rapptónlistarinnar. Sveitin starfaði í um þrjú ár og sendi frá sér eina plötu sem vakti töluverða athygli þótt tónlistin og sveitin væri vissulega neðanjarðar þarna í upphafi rappsenunnar á Íslandi.
Subterranean átti rætur sínar að rekja að nokkru leyti til Svíþjóðar en þar höfðu bræðurnir Magnús Jónsson (Magse) og Karl Kristján Davíðsson (sem þarna kallaði sig Dj Demo en síðar Charlie D) búið og fengist við að búa til hip hop tónlist m.a. með Svíanum Frew Elfineh, þegar þeir bræður fluttust heim til Íslands 1995 hófu þeir að vinna með Smára Jósepssyni (smarij) að þess konar tónlist undir nafninu Kreative Krew. Svo mun það hafa verið árið 1996 sem þeir félagar heyrðu Rögnu Kjartansdóttur rappa í félagsmiðstöð og buðu henni í kjölfarið að koma fram með sveitinni á giggi í Hólabrekkuskóla, upp frá því var hún tekin inn í sveitina og nafnið Subterranean var tekið upp.
Boltinn byrjaði svo að rúlla í upphafi árs 1997 þegar demo upptaka með sveitinni var leikin í nokkur skipti á útvarpsstöðinni X-inu. Í kjölfarið fóru þau á fullt að semja og voru fljótlega komin með um fimmtán lög þar sem bæði var rappað á ensku og íslensku, þá var Svíinn Frew Elfineh (Black Fist) genginn til liðs við hópinn en Smári hafði þá yfirgefið sveitina. Subterranean fór jafnframt að koma meira fram opinberlega og um vorið kom stóra tækifærið þegar sveitin hitaði upp fyrir Fugees í Laugardalshöll, þar með mætti segja að sveitin hafi komið almennilega upp á yfirborðið og í kjölfarið kom hún heilmikið fram á tónleikum um sumarið. Þá átti sveitin einnig tvö lög í kvikmyndinni Blossi 810551 og á plötu með tónlist úr myndinni en það voru fyrstu lögin sem komu út með þeim félögum – annað þeirra laga var í samstarfi við Dj Rampage og Mr. Bix.

Subterranean
Síðsumars tóku Subterranean-liðar upp tólf laga plötu og héldu sig til hlés á tónleikasviðinu rétt á meðan en hún kom svo út um haustið 1997 og bar titilinn Central Magnetizm, platan var unnin með Birgi Sigurðssyni (Mr. Bix) og auk fjórmenninganna léku bassaleikarinn Óttar Sæmundsson og Pétur Þór Benediktsson gítarleikari á plötunni og gáfu henni eilítið „læv“ fíling, auk þess komu Ómar Swarez og Bounce brothers við sögu á henni sem gestarapparar. Frew hafði lítið verið með Subterranean þar sem hann var búsettur í Svíþjóð en kom til Íslands þegar farið var af stað til að fylgja plötunni eftir, m.a. þegar sveitin hitaði upp fyrir De la soul á Hótel Íslandi um svipað leyti og útgáfan átti sér stað.
Central Magnetizm hlaut prýðilegar viðtökur bæði gagnrýnenda og aðdáenda, hún seldist ágætlega (kom bæði út á geisladiska- og vínylplötuformi) og fékk frábæra dóma í Morgunblaðinu og DV auk þess sem hún skoraði hátt í áramótauppgjörum blaðanna tveggja enda þótti platan óvenju heilsteypt og þroskuð af ekki eldra fólki, Karl var elstur eða um tvítugt og Ragna og Magnús sautján ára. Lagið Mortal kombat náði strax hátt á Íslenska listanum og eftir áramótin (1997-98) gerðist það sama með My style is freaky – bæði lögin komust svo á topp 100 lista Íslenska listans þegar árið 1998 var síðar gert upp en It‘s tha subta náði einnig nokkrum vinsældum. Subta eins og sveitin var stundum kölluð hlaut ennfremur þrjár tilnefningar á Íslensku tónlistarverðlaununum í upphafi árs 1998, sem hljómsveit ársins, söngkona ársins (Cell 7) og bjartasta vonin en sveitin hlaut síðan síðast töldu verðlaunin.
Með þessari plötu braut Subterranean blað í íslensku hip hopi og skipaði sér fremsta í flokki þeirrar tegundar tónlistar ásamt Quarashi sem einnig sendi frá sér plötu árið 1997 og saman ruddu sveitirnar tvær brautina fyrir aðra rappara og hip hop sveitir og í kjölfarið brast á með hip hop bylgju.
Sveitin hélt sínu striki árið 1998, hitaði upp fyrir Gravediggaz í Fylkishöllinni um vorið og var síðan nokkuð í sviðsljósinu um vorið og sumarið, túraði m.a. eitthvað með SSSól á sveitaböllum, spilaði á Popp í Reykjavík tónleikum í Héðinshúsinu og víðar en átti einnig lög á safnplötum eins og For ya mind: volume 1, þar var m.a. lagið Talentz sem naut nokkurra vinsælda en einnig lagið Ariella (endurunnin útgáfa af laginu Sveitin milli sanda e. Magnús Blöndal Jóhannsson) sem sveitin vann með Aríu (Maríu Björk Sverrisdóttur) og það kom svo einnig á plötu Aríu – Haze. For ya mind útgáfan (FYM) samnefnd safnplötunni vann að því að koma sveitinni á framfæri á erlendum markaði. Subterranean var þannig séð komin á íslenska landakortið að minnsta kosti og lög með sveitinni komu einnig út á safnplötum eins og Þetta er R&B og hip hop um haustið og síðan Pottþétt rapp árið 1999.

Subterranean
Árið 1999 fór þó minna fyrir Subterranean en menn bjuggust við, meðlimir sveitarinnar uxu svolítið hver í sína áttina og Karl Kristján átti einnig við veikindi að stríða. Þau Ragna og Magnús unnu þó saman áfram ásamt öðrum í Tha Faculty hópnum, skammlífri sveit sem stofnuð var um vorið en Subterranean hætti svo endanlega störfum þegar Ragna fór í hljóðvinnslunám til New York og dvaldi þar næstu árin, Magnús átti eftir að koma við í ýmsum hip hop verkefnum áður en hann sneri sér að reggítónlist undir merkjum Amabadama. Ragna átti síðar eftir að gefa út sólóplötur undir Cell 7 nafninu og Kristján Davíð átti eftir að hasla sér völl á myndlistasviðinu (hann hafði myndskreytt plötucover Central Magnetizm) en hefur einnig snúið sér aftur að tónlist í seinni tíð.
Subterranean hefur að minnsta kosti tvívegis komið fram eftir að sveitin hætti störfum, annars vegar þegar hún kom fram ásamt Ty og Dj Bizznizz á Gauki á Stöng árið 2001 og svo þegar sveitin birtist á tónleikum Cell 7 (Rögnu) vorið 2014 þegar hún var að kynna nýútkomna plötu sína en þessir fyrrum liðsmenn hennar í Subterranean höfðu einmitt komið við sögu (ásamt fleirum) á plötunni.
Þrátt fyrir að Subterranean hafi ekki endilega orðið að stærsta nafninu í fyrstu stóru hip hop bylgjunni á Íslandi, ruddi sveitin sem fyrr segir brautina (ásamt Quarashi) fyrir aðra sem á eftir komu og þar má t.a.m. nefna sveitir og rappara eins og XXX Rottweiler hunda, Forgotten lores, Blaz Roca, Afkvæmi guðanna, Bent & 7berg, Sesar A o.m.fl.