Þórscafé [tónlistartengdur staður] (1945-2003)

Þórscafé á níunda áratugnum

Veitinga- og skemmtistaðurinn Þórscafé (Þórskaffi) er meðal langlífustu og vinsælustu skemmtistöðum sem hér hafa starfað en saga hans spannaði ríflega hálfa öld.

Þórscafé er fyrst nefndur í fjölmiðlum þess tíma haustið 1945 en þá var staðurinn opnaður sem veitingastaður. Það er svo ári síðar sem hann er auglýstur sem skemmtistaður einnig og við þau tímamót er oftast miðað. Það voru hjónin Ragnar Valur Jónsson og Júlíana Erlendsdóttir sem voru eigendur að Þórscafé og ráku hann lengi vel ásamt Baldvini Guðmundssyni, og síðar tóku við afkomendur þeirra hjóna og tengslafólk.

Þórscafé var fyrstu árin staðsettur við Hlemm, nánar tiltekið á efri hæð í húsnæði Sveins Egilssonar sem þar rak bifreiðaverkstæði, staðurinn var ýmist auglýstur sem til húsa á Laugavegi 105 eða Hverfisgötu 116 en skýringin er sú að húsið var stórt og inngangar þess beggja megin við sína hvora götuna.

Fyrst um sinn var Þórscafé í um hundrað og fimmtíu fermetra rými í tveimur sölum og hýsti margs konar starfsemi, allt frá almennum fundum til skemmtifunda og skákmóta, auk auðvitað dansleikja svo nokkur dæmi séu nefnd.

Skemmtistaðurinn naut strax  mikilla vinsælda, opið var öll kvöld og alltaf var fullt hús. Tvisvar í viku voru gömludansakvöld en önnur kvöld voru hefðbundnari.

Frá fyrstu árum Þórscafé

Þórscafé var til húsa við Hverfisgötu/Laugaveg til ársins 1958 en þá flutti starfsemin upp í Brautarholt þar sem Ragnar hafði byggt húsnæði undir skemmtistaðinn sem nú var á tveimur hæðum. Þar átti Þórscafé eftir að vera eftirleiðis og breytast og þróast eftir tíðarandanum.

Ragnar V. Jónsson stýrði Þórscafé allt til ársins 1971 en þá keypti Jón Ragnarsson sonur hans, og Björgvin Árnason tengdasonur fyrirtækið ásamt eiginkonum tínum en Ragnar átti eftir að koma aftur við sögu staðarins síðar og var viðloðandi hann þar til hann lést 1981.

Það var þó ekki fyrr en 1976 sem staðurinn hlaut vínveitingaleyfi en fram til þess tíma höfðu hótel eingöngu leyfi til að selja vínveitingar hérlendis. Það ár voru miklar breytingar gerðar á húsnæðinu og starfsemin breyttist nokkuð við það, staðurinn tók þá allt upp í þrjú hundruð manns í mat og alls um tólf hundruð í húsinu, og varð nú fyrsti skemmtistaðurinn til að vera með skemmtishow en það var hinn margfrægi og geysivinsæli Þórskabarett, sem var skemmtisýning með grínatriðum og dansleik á eftir. Fimm barir voru í Þórscafé þá en þeir áttu mest eftir að verða níu talsins.

Lifandi tónlistarflutningur var alltaf megineinkenni Þórscafé og hljómsveitir sem léku þar skipta sjálfsagt mörgum tugum, meðal húshljómsveita má nefna KK-sextett, Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar, Lúdó og Stefán, Hljómsveit Jakobs Ó. Jónssonar, Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar, J.H. kvintettinn, Santos, Hljómsveit Svavars Gests, Galdrakarla, Dansbandið, Leiktríóið, Pónik og Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar.

Frá Þórscafé

Blómaskeið Þórscafés náði allt undir lok níunda áratugarins en þá voru skrautfjaðrirnar smám saman að týnast af staðnum, staðnum var lokað um tíma vorið 1990 vegna vangoldins söluskatts og þá hafði hann gengið undir ýmsum nöfnum, Amadeus, Vetrarbrautin og Danshöllin en Þórscafé varð þó alltaf ofan á. Það var síðan sumarið 1991 sem Þórscafé var endanlega lokað og hýsti húsið Hitt húsið um skeið upp frá því.

Haustið 1998 opnaði síðan nektardansstaður í húsinu undir nafninu Þórscafé og starfaði til vorsins 2003 með hléum, í lokin var eitthvað boðið upp á lifandi tónlist í hluta staðarins sem þá gekk undir nafninu Gamla Þórscafé.

Húsið varð síðar þekkt sem Baðhús Lindu sem þar var til húsa um árabil.