Skólakór Héraðsskólans á Laugum (1933-76)

Héraðsskólinn að Laugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu starfaði á árunum 1925-88 en þá hlaut hann nafnið Framhaldsskólinn á Laugum. Kórsöngur var iðkaður lengi undir handleiðslu söngkennara skólans.

Engar upplýsingar er að finna um söngkennslu eða kórsöng innan héraðsskólans á fyrstu starfsárum hans en árið 1933 kom Páll H. Jónsson til starfa og kenndi þá m.a. söng, undir hans stjórn æfðu kórar við skólann allt til 1961 (með þeirri undantekningu að Áskell Jónsson kenndi söng veturinn 1939-40) og sungu þeir við ýmis tækifæri innan og utan skólans, stundum ásamt kór húsmæðraskólans á staðnum sem Páll stjórnaði einnig. Í tíð Páls munu hafa verið starfræktir tveir kórar (að minnsta kosti um miðjan sjötta áratuginn), kvenna- og karlakór – þeir hafa þá væntanlega einnig starfað saman sem heild.

Friðrik Jónsson tók við söngkennslunni af Páli að öllum líkindum árið 1961 og sinnti því starfi í um fimmtán ár, til 1976. Kórsöngurinn var með svipuðu sniði undir hans stjórn en hann mun hafa starfrækt þrjá kóra, aðalkórinn sem var blandaður, karlakór og svo hinn svokallaða Litla kór sem var eins konar úrvalskór þeirra bestu og söng á tyllidögum.

Engar upplýsingar er að finna um söngkennslu og kórastarf eftir 1976 og þar til skólanum var slitið í síðasta sinn undir héraðsskólanafninu vorið 1988.