Skólakór Grunnskólans í Hveragerði (1978-)

Kór Barnaskólans í Hveragerði 1986

Skólakórar hafa verið starfræktir við Grunnskólann í Hveragerði um árabil og líklega nokkuð samfleytt frá árinu 1978 að minnsta kosti, fyrst við barnaskólann og svo áfram eftir að barna- og gagnfræðaskólarnir sameinuðust árið 1988 í Grunnskóla Hveragerðis. Kórarnir í Hveragerði hafa gengið undir ýmsum nöfnum í fjölmiðlum s.s. barnakór, kór, skólakór Hveragerðis, barnaskólans, gagnfræðaskólans, grunnskólans og þannig mætti áfram telja, og því er nokkuð snúið að vinna úr heimildum um efnið.

Elstu heimildir um kórastarf í skólanum eru frá því um vorið 1979 en þá var starfandi kór innan barnaskólans undir stjórn Önnu Jórunnar Stefánsdóttur sem tók þátt í stóru kóramóti barnakóra á Akureyri, því má ætla að sá kór hafi að minnsta kosti verið starfandi frá því haustið á undan (1978).

Ekkert bendir til annars en að kórinn hafi starfað nokkuð samfellt þrátt fyrir að glompur séu í heimildaleitinni, hann var starfandi 1980, 1985 og 86 en þá var Robert Darling kórstjórnandi kominn til sögunnar, reyndar mun nýr kór hafa verið stofnaður haustið 1987 (eftir eins árs pásu) sem Margrét Gunnarsdóttir stjórnaði en hún var við stjórnvölinn að minnsta kosti til 1990, árið 1995 er Kristín Sigfúsdóttir stjórnandi kórsins.

Skólakór Grunnskólans í Hveragerði 2001

Kristín stjórnaði kórnum að minnsta kosti til 2001 en eftir það kemur nokkurra ára gap í sögu hans. Fyrir liggur að Ágústa Ragnarsdóttir stjórnaði kórnum um tíma en það hefur verið eftir 2006, 2009 var kór í skólanum en engar upplýsingar er að finna um stjórnanda hans – árið 2015 var Dagný Halla Björnsdóttir við stjórnvölinn og einnig 2017.

Kór er starfandi í dag við Grunnskóla Hveragerðis en engar upplýsingar er að finna um hver stjórnar honum.