Stúlknakór Gagnfræðaskólans á Akureyri gæti hafa verið starfræktur nokkuð samfleytt um ríflega þrjátíu ára skeið en hann gæti einnig hafa starfað slitrótt, jafnvel einn og einn vetur með löngu millibili.
Heimildir eru til um stúlknakór við Gagnfræðaskólann á Akureyri veturinn 1946-47 en sá kór söng við skólaslit skólans vorið 1947 undir stjórn söngkennarans Áskels Jónssonar, einnig var slíkur stúlknakór starfandi við skólann veturinn 1966-67 undir stjórn Áskels.
Áskell, sem var mikilvirkur söngstjóri og framámaður í tónlist fyrir norðan, kenndi söng við Gagnfræðaskólann á Akureyri á árunum 1943 til 1975 og á þeim tíma eru allar líkur á að einhvers konar skólakór hafi verið starfandi þar, hvort um var að ræða blandaðan kór, stúlknakór eða jafnvel drengjakór gæti hafa verið misjafnt og þess vegna gæti verið að allar tegundir kóranna hafi verið starfandi á sama tíma og svo enginn kór á öðrum tíma.
Því er hér óskað eftir frekari upplýsingum um stúlknakór Gagnfræðaskóla Akureyrar sem og um annað kórastarf innan skólans, hvort sem það var undir stjórn Áskels eða annarra söngkennara.